Fara í efni

Hveradalir – stígagerð um hverasvæðið hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2022

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2022 voru afhent í dag. Verðlaunin í ár hlýtur Hveradalir ehf. fyrir verkefnið "Stígagerð um hverasvæðið - aðgengi fyrir alla".

Um er að ræða ,,svífandi" sjálfberandi göngustíga úr áli sem lágmarka snertipunkta við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði við Skíðaskálann í Hveradölum. Hverirnir eru vinsæll áfangastaður ferðamanna og lá svæðið undir skemmdum vegna umferðar þeirra og óglöggra gönguleiða, sem iðulega var farið út fyrir. Mikil slysahætta gat skapast vegna ókunnugleika ferðamanna á hverahitanum. Nauðsynlegt þótti að beina þeim um svæðið með öruggum hætti.

Aukið öryggi og bætt aðgengi

Um er að ræða framkvæmdir til að bæta aðkomu ferðamanna í viðkvæmri náttúru. Auk þess að setja upp upplýsingaskilti um það sem fyrir augu ber á hverasvæðinu, sögu þess og auka þannig fræðslugildi á hverasvæðinu. Um er að ræða algilda hönnun, 1,5 metra breiðan stíg sem verður 3 metrar þar sem pallar koma. Þannig skapast góður möguleiki fyrir hjólastóla til að mætast, snúa við og stoppa á völdum stöðum til að njóta umhverfisins og fræðast. Slétt yfirborð stíganna auðveldar alla umferð hreyfihamlaðra. Handriðum var fjölgað og lýsingu bætt við til að stuðla að notagildi þeirra allan ársins hring og auka öryggi gesta.

Hveradalir ehf. hafa þrívegis hlotið styrki frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Framkvæmdaverkefnin voru kláruð með miklum sóma og ríma vel við áherslur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er varða öryggi, bætt aðgengi og samfélagslega ábyrgð.

Umhverfisverðlaun veitt frá árinu 1995

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd.
Þau hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 28. sinn sem þau eru afhent. Verðlaunin eru nú í sjöunda sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfisstefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.


Frá afhendingu verðlaunanna í dag. Frá vinstri: Birgir Þ. Jóhannsson, frá Alternance arkítektastofunni, sem hannaði stígana; Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri; Grettir Rúnarsson, eigandi Skíðaskálans í Hveradölum og Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu.

 


Um er að ræða ,,svífandi" sjálfberandi göngustíga úr áli sem lágmarka snertipunkta við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði. Stígarnir eru 1,5 m á breidd með útskotum sem opnar fyrir aðgengi hjólastóla.

 

 

 


Á myndunum sést vel hvernig stígarnir lágmarka snertipunkta við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði.


Handriðum var fjölgað og lýsingu bætt við til að stuðla að notagildi þeirra allan ársins hring og auka öryggi gesta.

 

 

Um verðlaunagripinn

Verðlaunagripurinn ber heitið ,,Sjónarhóll“ og eru höfundar hans Jón Helgi Hólmgeirsson og Védís Pálsdóttir. Hugmyndin bakvið gripinn er hvernig hægt er að upplifa náttúruna frá mismunandi sjónarhornum og þá einstöku upplifun hvers og eins að nálgast áfangastað. Látúnstangir mynda þrívíðan hól úr uppréttum hæðarlínum. Línuteikningar bæta við hólinn hlíðum og árfarvegum. Hóllinn varpast í speglum sem myndar nýjar víddir eftir því hvaðan á er litið. Sjónarhóll er í senn náttúran, samspilið við hið manngerða og sjónarhornið sem upphefur upplifunina.