Hvatningarátak vegna ferðalaga innanlands farið af stað - Efni fyrir ferðaþjónustuaðila aðgengilegt

 

Í kvöld fór af stað nýtt átak stjórnvalda þar sem Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands og kaupa vörur og þjónustu. Í hvatningarátakinu er fólki í ferðahug beint inn á vefinn www.ferdalag.is þar sem yfirlit er yfir alla þá fjölbreyttu ferðaþjónustu sem Ísland hefur upp á að bjóða. Átakið verður keyrt í öllum helstu miðlum; sjónvarpi, útvarpi, í dagblöðum og á netinu. Á samfélagsmiðlum verður myllumerkið #komdumed notað.

Nýr ferdalag.is

Gagnagrunnur Ferðamálastofu hefur verið uppfærður og í tilefni af því og hvatningarátakinu var nýr vefur Ferðalag.is settur í loftið. Þar er hægt að skoða ferðaþjónustu eftir ýmsum flokkum og landshlutum. Þau fyrirtæki sem munu taka á móti ferðagjöf, stafrænu gjafabréfi stjórnvalda, verða sérmerkt á Ferðalag.is þegar ferðagjöfin fer í loftið.

Býðst að skrá tilboð

Til að auka sýnileika sinn og draga að umferð býðst fyrirtækjum að skrá tilboð sem þau hyggjast bjóða landsmönnum upp á í sumar. Fyrirtækin sjá sjálf um að skrá tilboð og þau birtast samstundis á ferdalag.is. Verða þau fyrirtæki sem bjóða tilboð merkt sérstaklega á vefnum. Við bendum á að hlekkur á tilboð vísi á vef eða eigin bókunarsíðu fyrirtækis.

Mikilvægt er að muna að sé þjónusta seld sem pakkaferð þarf ferðaskrifstofuleyfi.

Efni til notkunar í markaðsstarfi

Efni hvatningarátaksins er hugsað þannig að það nýtist fyrir alla landshluta og að aðilar í ferðaþjónustu geti auðveldlega nýtt sér það í sínu eigin markaðsefni. Efnið hefur nú verið gert aðgengilegt á hér vef Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa hvetur ferðaþjónustufyrirtæki til að taka vel á móti Íslendingum í sumar, til dæmis með því að hafa kynningarefni og aðrar upplýsingar á íslensku.


Athugasemdir