Hvalir efstir í huga og Mývatn eftirminnilegast

Hvalir efstir í huga og Mývatn eftirminnilegast
Hvalur

Á liðnu sumri var gerð könnun meðal erlendra ferðamanna á ímynd Norðurlands og Eyjafjarðar. Helstu niðurstöður hafa nú verið birtar í skýrslu og eru áhugaverðar að ýmsu leyti. Meðal annars kom fram að hvalaskoðun var það sem fólki var efst í huga varðandi landshlutann og Mývatn var eftirminnilegast.

Könnunin var unnin af Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar fyrir Vaxtarsamning Eyjafjarðar, matvæla- og ferðaþjónustuklasa meðal erlendra brottfararfarþega í Leifsstöð og á Seyðisfirði. Allir þeir sem tóku þátt í könnuninni voru beðnir um að draga hring utan um Norðurland á Íslandskort. Jafnframt voru þeir beðnir um að taka afstöðu til tveggja fullyrðinga um svæðisbundin matvæli og veitingar. Þá voru allir spurðir hversu vel þeir þekktu nöfnin ?Akureyri? og ?Eyjafjörður?. Þeir ferðamenn sem höfðu komið á Norðurland voru auk þess spurðir ýmissa spurninga, m.a. hvort þeir hefðu séð kynningarefni um landshlutann og hvort þeir teldu Norðurland frábrugðið öðrum landshlutum og þá hvernig. Þá voru þeir beðnir að nefna hvað þeim væri efst í huga varðandi Norðurland, hvaða staðir á Norðurlandi væru þeim minnisstæðastir, hvað þeim þætti best og lakast við heimsóknina á Norðurland og að lokum hvað þeir teldu einkenna Akureyri og nágrenni.

Sérkenni Norðurlands
Af þeim gestum á Norðurlandi sem afstöðu tóku töldu 86% að Norðurland væri frábrugðið öðrum landshlutum. Nær helmingur þeirra nefndu að náttúran þar væri öðruvísi, 16% töldu gott veður einkenna landshlutann umfram önnur svæði og 11% nefndu að þar væru ferðamenn víða færri en annars staðar. Rúmlega helmingur þeirra sem höfðu komið á Norðurland höfðu séð auglýsinga- eða kynningarefni um landshlutann. Þeir sem höfðu séð slíkt kynningarefni áður en þeir fóru að heiman sáu það helst á Internetinu (33%) en því næst í ferðabæklingum (22%). Eftir að fólk var komið til Íslands fékk það helst upplýsingar um Norðurland í ferðabæklingum (30%) og á upplýsingamiðstöðvum (23%).

Hvalirnir efstir í huga og Mývatn eftirminnilegast
Þegar spurt var hvað erlendum ferðamönnum sem höfðu heimsótt Norðurland væri efst í huga varðandi landshlutann nefndu flestir hvali (26%) en síðan Mývatn (21%), náttúruna (17%), Akureyri (10%), firði/flóa (10%), eldfjöll/hraun (9%) og fjöll (8%). Það er mjög athyglisverð niðurstaða að hvalir séu nú ofar í hugum erlendra sumargesta en Mývatn þegar þeir hugsa til Norðurlands og ótvírætt saga til næsta bæjar, eins og segir í greinargerð með könnuninni.

Af einstökum stöðum á Norðurlandi þótti flestum erlendum gestum þar Mývatn vera á ?topp þremur? sem eftirminnilegasti staðurinn (69%), síðan Akureyri (43%), Húsavík (41%) og Dettifoss (30%) en síðan komu Krafla (9%) og Ásbyrgi (7%).

Best og verst
Áberandi flestir af gestum Norðurlands nefndu að náttúran/landslagið hefði verið það besta við landshlutann (43%) en síðan kom hvalaskoðun (15%), Mývatn (11%), eldfjöll/hraun (9%), vingjarnlegt fólk (9%), gott veður (7%) og Dettifoss (6%). Einungis rúmlega þriðjungur þeirra sem höfðu verið á Norðurlandi nefndu hvað þeim hefði þótt verst við heimsóknina þangað. Flestir þeirra nefndu að veðrið hefði verið leiðinlegt (36%) en því næst komu slæmir vegir (16%) og hátt verðlag (11%), mýflugur
(5%) og veitingar (5%).

Mynd: Hvalaskoðun á Skjálfanda.

 


Athugasemdir