Fara í efni

Hótel Óðinsvé hlaut forvarnarverðlaun TM

HotelOdinsve
HotelOdinsve

Hótel Óðinsvé hlaut forvarnarverðlaun Tryggingamiðstöðvarinnar fyrir árið 2002 en verðlaunin voru afhent í fjórða skiptið í gær, 31. október. Þau eru veitt árlega þeim viðskiptavinum TM sem þykja skara framúr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum. Ákvörðun um að veita Hótel Óðinsvéum verðlaunin í ár byggir á því að TM telur forvarnir þar með því besta sem gerist hér á landi og að hótelið sýni öðrum fyrirtækjum gott fordæmi að þessu leyti.
Í frétt frá TM kemur fram að afhending verðlaunanna beinir sjónum að mikilvægi öflugra brunavarna í fyrirtækjum sem hafa aðsetur í fjölmennum íbúahverfum. Óðinsvé er staðsett í miðbæ Reykjavíkur þar sem byggð er einna þéttust og mikil hætta getur stafað af útbreiðslu elds. Á síðustu árum hefur hótelið lagt mikla áherslu á uppbyggingu brunavarna og annarra forvarna sem hafa aukið öryggi viðskiptavina, starfsfólks og nærliggjandi húsa. Að mati TM standast brunavarnir hótelsins allar þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja um viðvörunar- og vatnsúðakerfi, brunahólfun, þjálfun starfsfólks, gott aðgengi að handslökkvibúnaði og öflugt eigið eftirlit.

Meðal þeirra sem viðstaddir voru afhendingu verðlaunanna voru samgöngu- og ferðamálaráðherra, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins og forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Myndatexti:  Bjarni Ingvar Árnason hjá Hótel Óðinsvéum og Gunnar Felixson forstjóri Trygginga-miðstöðvarinnar við afhendingu verðlaunanna.