Fara í efni

Hótel KEA stækkar

KEA
KEA

Hótel KEA á Akureyri er nú orðið stærsta fjögurra stjörnu hótelið utan Reykjavíkur, eftir nýlegar breytingar. Nýjum herbergjum var bætt við á jarðhæð og herbergjum sem áður tilheyrðu Hótel Hörpu hefur nú verið breytt og þau sameinuð Hótel KEA, sem eftir breytinguna telur 104 herbergi.

Hótel KEA er með rótgrónustu hótelum landsins en það var opnað árið 1944. Það er rekið af Keahótelum ehf. sem samtals reka fimm hótel, tvö á Akureyri, Hótel KEA og Hótel Norðurland, tvö í Reykjavík, Hótel Björk og Hótel Borg og Hótel Gíg við Mývatn. Öll eru hótelin þátttakendur í gæðaflokkun gististaða með stjörnugjöf, sem Ferðamálastofa heldur utan um.