Fara í efni

Höfuðborgarsvæðið kynnt sem ein heild

upplmidstod
upplmidstod

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins hafa undirritað samstarfssamning um að vinna sameiginlega að upplýsingamiðlun, kynningu á viðburðum tengdum ferðaþjónustu og að markaðssetja höfuðborgarsvæðið sem eina heild.

Aðgengilegri og markvissari upplýsingagjöf
Sveitarfélögin sem aðild eiga að samningnum eru Álftanes, Garðabær, Hafnarfjarðarbær, Kópavogur, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg. ?Stærsti kostur við fyrirkomulag sem þetta er að með því næst að skapa heildstæða mynd af höfuðborgarsvæðinu í huga ferðamanna. Með aðgengilegri og markvissari upplýsingagjöf og kynningu á svæðinu næst fram það markmið að gestir höfuðborgarsvæðisins staldra lengur við. En einnig er samstarfinu ætlað að ná betur til allra íbúa svæðisins, sem er ekki síður mikilvægur markhópur fyrir afþreyingarfyrirtæki og menningarviðburði, óháð búsetu þeirra innan svæðisins,? segir Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins.
 Hann bendir á að ferðaþjónustufyrirtæki, menningarstofnanir og sveitarfélögin sjálf leggja í síauknu mæli til margskonar þjónustu og möguleika í afþreyingu fyrir gesti svæðisins. Þannig hefur fjölbreytni fyrir ferðamenn, sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu, aukist mikið á undanförnum árum og tekur það til allra þátta ferðaþjónustunnar.

Höfuðborgarstofa í lykilhlutverki
Höfuðborgarstofa gegnir lykilhlutverki í samstarfinu og þar mun markaðsstarfið fara fram. Höfuðborgarstofa mun m.a. sjá um að viðhalda samskiptum og miðla upplýsingum frá sveitarfélögunum og Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins. Höfuðborgarstofa rekur Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík, sem er fjölsóttasta upplýsingamiðstöð landsins. Sérstakt svæði á Höfuðborgarstofu verður tileinkað höfuðborgarsvæðinu þar sem sveitarfélögin hafa hvert um sig tækifæri til að kynna sínar áherslur.

Styrkir FSH
Með aukinni samvinnu mun að sögn Péturs starfsemi Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum og sveitarfélögum á svæðinu styrkjast. Fulltrúar sveitarfélaganna, sem m.a. mynda stjórn FSH, geta þannig náð enn betra sambandi við ferðaþjónustuaðila svæðisins. ?Ég lít á samninginn sem ákveðin tímamót í ferðaþjónustu svæðisins. Á undanförnum árum hefur það tíðkast í síauknu mæli að landshlutar og einstök svæði hafa aukið samvinnu sína á sviði ferðaþjónustu með það í huga að gera markaðsstarfið einbeittara og bæta upplýsingagjöf og nýtingu fjármuna sem varið er í kynningarstarf á hverju svæði. Það er einnig markmið okkar hér,? segir Pétur. Samstarfssamningnum er ætlað að gilda til næstu tveggja ára til reynslu.

 


Pétur Rafnsson, formaður FSH.