Hlutfallslega mest fjölgun ferðamanna á Íslandi

Evrópska ferðamálaráðið (ETC) hefur birt síðustu ársfjórðungsskýrslu sína um gengi ferðaþjónustunnar í fyrra og horfurnar framundan. Ísland var það Evrópuríki sem naut hlutfallslega mestrar fjölgunar ferðamanna árið 2012.

4% fjölgun í heildina

Almennt séð átti ferðaþjónusta í Evrópu góðu gengi að fagna í fyrra og fjölgaði komum erlendra ferðamanna um 4%, sem kemur í kjölfar 7% fjölgunar árið 2011. Eftirspurn frá fjærmörkuðum hélst áfram góð og fleiri Evrópubúar ferðuðust einnig á milli landa innan álfunnar. Þannig er ferðaþjónustan ein fárra atvinnugreina sem sýnir vöxt í álfunni og leggur þannig lóð sitt á vogarskálina við að létta undir í því erfiða efnahagsástandi sem mörg lönd glíma við.

Ísland á toppnun

Þau lönd sem sýndu mesta fjölgun voru áfangastaðir sem ETC metur sem vaxandi áfangastaði (emerging destinations). Ísland trónir örugglega á toppnum með tæp 20%, þá kemur Litáen með 12% og Rúmenía með 10%. Stærri áfangastaðir áttu einnig góðu gengi að fagna. Þannig fjölgaði erlendum ferðamönnum í Þýskalandi um 8%, um 5% á Spáni og 5% í Austurríki.

Rússland vex hraðast

Sem fyrr segir var áfram góð eftirspurn frá fjærmörkuðum. Flest Evrópulönd nutu góðrar fjölgunar frá Bandaríkjunum og komum Japana fjölgaði aftur eftir áföllin 2011. Af mörkuðum utan Evrópu var mestur vöxtur frá Rússlandi. Hvað varðar ferðalög innan álfunnar þá fjölgaði bæði Þjóðverjum og Hollendingum sem ferðuðust til annarra Evrópulanda. Einnig mátti sjá fjölgun Frakka á faraldsfæti framan af ári.

Horfur 2013

Hvað varðar horfurnar 2013 þá kemur fram að efnahagslíf álfunnar fari óðum að rétta úr kútnum, þótt áfram megi búast við þrengingum á sumum svæðum. Hér gegni ferðaþjónustan stóru hlutverki, með því að skapa gjaldeyri, tekjur fyrir ríki álfunnar og fjölda starfa. Áfram er búist við vexti frá fjærmörkuðum á árinu en ferðalög innan álfunnar verða samt áfram lykilþáttur í vexti og viðgangi greinarinnar.

Mat ETC er að gera megi ráð fyrir 1-3% vexti ferðaþjónustunnar á árinu fyrir álfuna í heild en að gengi einstakra áfangastaða verði áfram talsvert mismunandi.

Skýrslur ETC

Skýrslur ETC í heild má nálgast hér:
http://www.etc-corporate.org/reports/tourism-trends

 


Athugasemdir