Fara í efni

Hljóðbombur til að vara ferðamenn við Kötlugosi prófaðar í dag

Hljóðbombur
Hljóðbombur

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og viðbragðsaðilar hafa unnið að gerð viðbragðsáætlunar vegna hugsanlegs eldgoss undir Mýrdalsjökli. Á þessu svæði eru margir vinsælir ferðamannastaðir og ef eldgos hefst í Kötlu þá er nauðsynlegt að koma upplýsingum til allra á svæðinu á eins stuttum tíma og mögulegt er.

Húseigendur og skráðir íbúar á svæðinu fá talskilaboð í heimasíma og SMS í GSM síma. Ekki er mögulegt að nota þá tækni fyrir ferðamenn á svæðinu og því er hugmyndin að nota hljóðbombur til að vara ferðamenn við, ef eldgos hefst í Kötlu. Hljóðbomburnar eru svipaðar að gerð og neyðarflugeldar en bjarmi kemur ekki af þeim aðeins hávær hvellur. Samskonar hljóðbombur hafa verið notaðar til að kalla út björgunarlið í bæjum og þorpum á Bretlandi með góðum árangri.

Til að fá fullvissu hvort þessi aðferð virki eins vel og vonir standa til verða hljóðbombur prófaðar í dag milli kl. 16:00-24:00 á svæðinu frá Þórsmörk að Hrafntinnuskeri. Til samanburðar verður tívolíbombu skotið á loft. Fólk er beðið að sýna skilning meðan á prófuninni stendur.

Ef vel tekst til mun þessum hljóðbombum verða komið fyrir í skálum á svæðinu þar sem þær verða hluti af viðvörunarkerfi til ferðamanna og jafnframt verður gefinn út bæklingur fyrir ferðamenn og upplýsingaskilti verða sett upp við helstu gönguleiðir. Þessi ferð er í samstarfi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjórans, almannavarnanefndar Rangárvallasýslu og Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.

Í sömu ferð munu fulltrúar björgunarsveita, lögreglu og sýslumannsembættisins í Rangárvallasýslu koma fyrir viðvörunarskilti um hrun úr íshellum við Hrafntinnusker.