Helen Hannesdóttir ráðin forstöðumaður þróunar- og þjónustusviðs
Helen Hannesdóttir hefur hafið störf sem forstöðumaður þróunar- og þjónustusviðs Ferðamálastofu. Starfið var auglýst í byrjun júní og barst 71 umsókn. Starfsstöð hennar er á Akureyri.
Helen er fædd og uppalin á Akureyri. „Ég er viðskiptafræðingur að mennt og hef starfað innan ferðaþjónustunnar síðastliðin 12 ár ásamt því að reka eigið ferðaþjónustufyrirtæki með manninum mínum. Ég hef nýverið lokið meistaranámi í stjórnun sjálfbærrar ferðaþjónustu en ég hef verið búsett í Chamonix, Frakklandi síðastliðin tvö ár,“ segir Helen.
Lokaverkefni meistaranámsins vann hún í góðri samvinnu við Ferðafélag Íslands þar sem unnin var ítarleg sjálfbærniskýrsla með áherslu á orkuskipti og úrgangsstjórnun í skálum félagsins á Laugaveginum. Í kjölfarið tók hún að sér verkefni fyrir FÍ sem lúta að umhverfis- og öryggismálum, náttúruvernd og innleiðingu sjálfbærni í starfsemi félagsins.
Áður starfaði Helen hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Kilroy í rúm 7 ár þar sem hún sinnti ýmsum verkefnum ásamt því að koma að innleiðingu hópferðadeildar innan fyrirtækisins og hafði síðar umsjón með henni. Þá hefur hún setið í ýmsum stjórnum og nefndum í gegnum tíðina, m.a. í stjórn Klifursambands Íslands.
Starfsfólk Ferðamálastofu býður Helen velkomna og hlakkar til samstarfsins.
Fráfarandi forstöðumaður þróunar- og þjónustusviðs, Elías Bj. Gíslason, óskaði eftir að láta af starfi forstöðumanns eftir rúm 27 ár en starfar áfram hjá stofnuninni sem sérfræðingur.