Fara í efni

Heimur útnefnir ferðafrömuð ársins

HeimurFramvordur
HeimurFramvordur

Útgáfufélagið Heimur útnefndi ferðafrömuð ársins í fyrst sinn í hófi í Borgarleikhúsinu sem haldið var í tilefni af 40 ára afmæli tímaritsins Iceland Review. Jón Jónsson þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð á Ströndum hlaut útnefninguna að þessu sinni.

Hefur komið víða að málum
Jón er ein aðal driffjöðurin að baki Galdrasýningar á Ströndum og rekur fyrirtækið Sögusmiðjuna, sem einbeitir sér að tengingu ferðaþjónustu fræða og menningarstofnana. Jón hefur látið til sín taka í vefsíðugerð, m.a. annast gerð Vestfjarðavefsins, auk þess sem hann stóð fyrir stofnun Sauðfjárseturs á Ströndum. Jón annast rekstur Upplýsingamiðstöðvar á Hólmavík og rekur fjölskylduvæna ferðaþjónustu í heimabyggð sinni að Kirkjubóli á Ströndum.

Sýnt frumkvæði og staðið að uppbyggingu af eigin rammleik
Í frétt frá Heimi segir að bakvið ákvörðun dómnefndar liggi sú hugsun að verið sé að velja einstakling úr grasrótinni sem hafi sýnt frumkvæði og staðið að uppbyggingu af eigin rammleik. Í niðurstöðum dómnefndar segir að Jón sé málsvari greinarinnar og talsmaður sem hafi starfað á hvetjandi hátt innan síns svæðis en hafi einnig látið gott af sér leiða fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu innanlands í heild sinni. Að auki hafi hann í starfi sínu hugað vandlega að umhverfisvernd og viðhaldi menningararfleifðar. Í dómnefnd sátu María Guðmundsdóttir ritstjóri, Svanhildur Konráðsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu og Sævar Skaptason framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda.

Til stendur að Heimur útnefni árlega ferðafrömuð ársins. Verðlaununum er ætlað að vera hvatning til þeirra sem litla sem enga hvatningu fá en hafa sýnt það og sannað að þeir gegna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu ferðaþjónustu á landsvísu, segir í frétt frá Heimi.