Fara í efni

Heildarfjöldi seldra gistinátta árið 2016 ríflega 8,8 milljónir

Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Seldar gistinætur árið 2016 voru ríflega 8,8 milljónir, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þar með talið áætlaðar óskráðar gistinætur seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður, sem Hagstofan áætlar nú í fyrsta sinn og birtir með tölum sínum. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 89% af heildarfjölda gistinátta árið 2016.

Skipting eftir tegundum gistingar

Eftir tegundum gististaða voru flestar gistinætur á hótelum og gistiheimilum, 5,2 milljónir eða 59% allra gistinátta, og fjölgaði um 26% frá fyrra ári. Gistinætur á tjaldsvæðum voru 11% allra gistinátta og 30% á öðrum tegundum gististaða. Gistinætur seldar í gegnum Airbnb flokkast hér með öðrum tegundum gististaða ásamt annarri heimagistingu, íbúðagistingu, farfuglaheimilum og orlofshúsum í eigu annarra en stéttarfélaga og félagasamtaka.

Helstu niðurstöður

  • Árið 2016 voru gistinætur á hótelum voru tvöfalt fleiri en 2013
  • Bæði framboð og nýting hefur aukist
  • Hagstofan áætlar að gistinætur seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar síður, sem vantar inn í gistináttatalningu Hagstofunnar, hafi verið ríflega 1 milljón árið 2016
  • Til að svara eftirspurn eftir aukinni svæðisbundinni tölfræði hefur verið birt ný veftafla með sundurliðun á heildarfjölda gistinátta eftir sveitarfélögum

Nánar á vef Hagstofunnar