Hámarka þarf verðmæti hvers herbergis

Hámarka þarf verðmæti hvers herbergis
Margrét Polly Hansen

 Í því harða samkeppnisumhverfi sem ríkir í gistingu er mikilvægt að hafa allar klær úti til að hámarka afraksturinn af hverju herbergi. Í þessum nýjasta þætti af Ferðalausnir – stafræn tækifæri, fer Margrét Polly Hansen hjá Hótelráðgjöf yfir áskoranir á þessu sviði og kynnir tæknilausnir sem hentar gististöðum af öllum stærðum.

Margrét Polly kynnir sérstaklega lausn sem nefnist Roomer, hótelstjórnunarkerfi sem verið í þróun síðan 1986 og er hannað með íslenskan gistimarkað í huga. Kerfið hefur m.a. innbyggt markaðstorg þar sem verðlagningu á öllum tengdum bókunarásum er stjórnað á einum stað, bókunarvél sem einfalt er að tengja vefsíðu viðkomandi gististaðar og ýmsa möguleika á skýrslum sem byggja á rauntímagögnum.

Tekjustýring

Meðal þess sem Margrét Polly fer yfir er tekjustýring. „Markmiðið er ætíð að hækka verðmæti hvers herbergis. Það er auðvelt að fylla flott hótel með því að hafa lágt verð og fá þannig frábærar nýtingartölur. Og ef maður er aðeins að keppa við að fá hátt meðalverð þá verða heildartekjurnar lægri þar sem færri herbergi seljast,“ segir hún m.a. Hún kynnir síðan hugtakið REVPAR, sem gefur marktækari upplýsingar um arðsemi hvers herbergis og er meðal fjölmargra þátta sem Roomer getur séð um að reikna út.

Fylgjast með og bregðast við

Margrét Polly fer einnig yfir mikilvægi þess að fylgjast vel með nýtingartölum eftir árstíðum, kanna stöðuna í hverjum mánuði, bera saman við sama tíma fyrra árs og geta brugðist rétt við með því að hækka og lækka verð eftir atvikum. 

Fjölga beinum bókunum

Vefsíða fyrirtækis þarf að einnig vera rétt upp sett til að mögulegt sé að fá fleiri beinar bókanir og þar með lækka kostnað við söluþóknun. Og besta verðið þarf að sjálfsögðu að vera á vef viðkomandi hótels. 

Horfa má á myndbandið hér að neðan

 


Athugasemdir