Fara í efni

Hálf milljón gesta á upplýsingamiðstöðvunum

upplmidstod
upplmidstod

Byggðastofnun og Félag ferðamálafulltrúa á Íslandi hafa lokið við könnun og skýrslu um rekstrar- og starfsumhverfi upplýsingamiðstöðva á Íslandi.

Markmið könnunarinnar var að fá upplýsingar um rekstrarfjármögnun, launakostnað og sértekjur upplýsingamiðstöðva og hvað felst í þeirri þjónustu sem upplýsingamiðstöðvar veita gestum, ferðaþjónustu- og/eða rekstraraðilum. Auk þess að kannað hvaða viðhorf og væntingar umsjónaraðila upplýsingamiðstöðva höfðu í tengslum við samstarf, markaðssetningu, veikleika og styrkleika ferðaþjónustunnar.

Um 44% heildarfjármagns aflað með sértekjum
Í skýrslunni kemur fram að tæplega hálf milljón gesta kom á upplýsingamiðstöðvarnar árið 2002. Könnun leiddi m.a. í ljós að um 44% heildarfjármagns landshlutamiðstöðva er aflað með sértekjum. Sveitarfélög lögðu fram 23% heildarrekstrarframlags og Ferðamálaráð Íslands um 21%. Úr svörum í könnuninni má lesa að afgerandi meirihluti umsjónaraðila taldi nauðsynlegt að rekstrarframlög hækkuðu verulega til að hægt yrði að auka rekstraröryggi.

Sóknarfæri til aukinna tekna
Umsjónaraðilar upplýsingamiðstöðva telja besta sóknarfærið í auknum tekjum liggja í bókunarþjónustu en fram kom í könnuninni að sértekjur vegna rekstrar á tjaldsvæðum var besta sértekjulind upplýsingamiðstöðvanna. Samkvæmt könnuninni er afgerandi meirihluti umsjónaraðila upplýsingamiðstöðvanna á þeirri skoðun að náttúrutengd ferðaþjónusta sé helsti styrkleiki greinarinnar. Nauðsynlegt sé að efla samstarf innan greinarinnar og ná fram aukinni hagræðingu til að auka arðsemi rekstrarins. Skýrslan í heild sinni er aðgengileg á vef Byggðastofnunnar.

Skoða skýrslu (pdf-skrá 2,2, MB)