Fara í efni

Hálendisskálar gerðir aðgengilegir öllum

Nyidalur 1
Nyidalur 1

Aðgengi að Skála ferðafélags Íslands í Nýjadal við Sprengisandsleið hefur nú verið bætt verulega. Verkið var unnið að frumkvæði Jóns Gunnars Benjamínssonar fyrir styrk frá Ferðamálastofu.

Forsaga málsins er að í fyrrasumar fór Jón Gunnar, sem bundinn er við hjólastól, ásamt félögum sínum á fjórhjóli suður yfir hálendið og kannaði þá m.a. aðgengi að fjallaskálum á leiðinni. Komust þeir að því að því er víða ábótavant. Kviknaði þá sú hugmynd þeirra að ráðast í úrbætur og veitti Ferðamálastofa 2 milljón króna styrk til verkefnisins.

Ákveðið var að byrja á skála FÍ í Nýjadal og réðist valið að sögn Jóns Gunnars af staðsetningu hans sem og stærð en skálinn er staðsettur mjög miðsvæðis á hálendinu og er stærsti hálendisskáli landsins með svefnpláss fyrir vel á annað hundrað manns auk eldunnar og snyrtiaðstöðu. Farið var í að laga aðgengi að eldri svefnskálanum en þar er einnig eldunaraðstaða. Einnig var salernis- og hreinlætisaðstaða gerð aðgengileg, ásamt sólpalli á vesturhlið svefnskálans. Breytingarnar fólust í smíði skábrauta/rampa með réttum halla upp að dyrum skálans og upp á sólpall og að salernis og hreinlætisaðstöðu. Einnig þurfti að breikka dyr á sturtunni sem og fella niður og breyta þröskuldi inn í sturtuaðstöðu. Dæmi um úrbætur á sjá á meðfylgjandi mynd.

?Hugur minn stendur til frekari verka á hálendinu og hef ég hug á að skoða aðstöðuna á Hveravöllum næst með það í huga að gera hana jafn aðgengilega og aðstaðan í Nýjadal er nú orðin. Einnig langar mig að gera smávægilegar breytingar í Landmannalaugum og víðar. Það var afar ánægjulegt að sjá þetta verkefni klárast á jafn farsælan hátt og raun ber vitni. Ég mun því halda ótrauður áfram á þessari ferð fái ég til þess brautargengi og nauðsynlegan stuðning,? segir Jón Gunnar. Á myndinni hér til hliðar er hann á farskjóta sínum rétt hjá vegslóðanum í Kiðagilsdrögum