Fara í efni

Hagvöxtur á heimaslóð - 18 norðlensk ferðaþjónustufyrirtæki í markaðsverkefni

Myvatn2
Myvatn2

Átján norðlensk ferðaþjónustufyrirtæki eru að hefja þátttöku í verkefni Útflutningsráðs, Hagvexti á heimaslóð. Verkefnið, sem stendur í tvo mánuði, er sniðið að þörfum aðila í ferðaþjónustu með sérstaka áherslu á hagnýtt gildi.

 

Markmiðið er að efla faglega hæfni í stefnumótun, vöruþróun, verðlagningu og markaðssetningu með áherslu á samstarf innan og milli svæða.  Útflutningsráð hefur þróað verkefnið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Impru nýsköpunarmiðstöð, Landsmennt, Mími-símenntun, Ferðamálasetur Íslands og Byggðastofnun og að auki styður Landsbanki Íslands við verkefnið.

 

Fyrsta verkefnið var á Vesturlandi í fyrra og upp úr því spratt svæðisbundið samstarf ferðaþjónustuaðila í erlendri markaðssetningu undir kjörorðunum All Senses Awoken. Nú eru tvö verkefni að hefjast; á Norðurlandi og á Vestfjörðum.   Sérstakir samstarfsaðilar verkefnisins á Norðurlandi eru Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi og Ferðaþjónustuklasi Vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Metþátttaka er meðal norðlenskra ferðaþjónustuaðila og komust færri að en vildu.  

 

Verkefnið á Norðurlandi er byggt upp af fjórum tveggja daga vinnufundum þar sem farið er yfir nokkur megin viðfangsefnið með fyrirlestrum og verkefnavinnu auk þess sem aðilar fá verkaefni til úrlausnar milli funda og 10 tíma sérfræðiráðgjöf til eftirfylgni verkefninu. Áhersla er lögð á leita til hæfustu aðila til að stýra hverjum þætti verkefnisins. Farið er yfir stefnumótun og markmiðssetningu, vöruþróun og verðlagningu, ímyndarmótun og markaðsmál, markaðssetningu á netinu auk þess sem sérstök áhersla er lögð á tengslanet og svæðisbundna samvinnu.  Fyrsti vinnufundurinn fer fram í Hótel Varmahlíð 8. og 9. febrúar. Aðrir vinnufundir fara fram á Sveitahótelinu Þórisstöðum á Svalbarðsströnd, Hótel KEA/Hörpu á Akureyri og Hótel Reynihlíð við Mývatn.   Verkefnisstjóri Hagvaxtar á heimaslóð  Norðurlandi 2006 er Arnar Guðmundsson, Útflutningsráði Íslands.