Fara í efni

Hagnýt ráð fyrir betri vef

Hagnýt ráð fyrir betri vef

Góður vefur spilar að líkindum stærra hlutverk í rekstri ferðaþjónustufyrirtækis en í flestum öðrum atvinnugreinum. Því er mikill fengur að við höfum í 5. þætti af Ferðalausnum - stafræn tækifæri fengið til liðs við okkur einn reyndasta vefráðgjafa landsins, Sigurjón Ólafsson hjá Fúnksjón vefráðgjöf.

Víðtæk reynsla

Sigurjón starfaði um árabil sem vefstjóri hjá bönkum og fleiri stórum aðilum en hefur undanfarin ár einbeitt sér að ráðgjöf og stefnumótun í vefmálum og stafrænum málum. Þá er hann jafnframt kennari í vefmiðlun við Háskóla Íslands. Síðast en ekki síst samdi hann Bókina um vefinn en hún er hugsuð sem handbók fyrir vefstjóra í daglegum störfum þeirra.

Helstu þættir í starfi vefstjórans

Í myndbandinu beinir Sigurjón kastljósinu að nokkrum lykilþáttum í starfi vefstjórans og hvað þarf til þess að halda úti góðum vef sem skilar þeim árangri sem af honum er krafist.

Vefstjóra líkt við heimilislækni

Í fyrsta lagi fer Sigurjón yfir hvað felst í því að vera vefstjóri og hvað almenn vefstjórn felur í sér. „Starfi vefstjórans hefur verið líkt við starf heimilislæknis. Hann þarf að hafa skilning á öllum þáttum vefsins en kalla til sérfræðinga eftir því sem þarf,“ segir Sigurjón meðal annars.

Hversu vel þekkirðu vefinn þinn?

Annan kafla myndbandsins nefnir Sigurjón „Hversu vel þekkirðu vefinn þinn?“ Þar bendir hann meðal annars á nokkur verkfæri sem hægt er að beita í daglegri vinnu til að læra betur inn á vefinn og notendurna. Slíkt er ekki síst mikilvægt ef ráðast á í endurnýjun á vef.

Efnisvinnan oft vanmetin

Mikilvægi þess að vinna gott efni fyrir vefinn verður aldrei of oft ítrekað, að sögn Sigurjóns. „Sýnileiki á leitarvélum og annars staðar er algert lykilatriði og til þess þarf vandað og gott efni sem mætir þörfum og kröfum notenda,“ segir hann. Efnisvinnan er líka erfiðari en margan grunar sem að líkindum er ástæða þess að hún er oft látin sitja á hakanum og tekin of seint inn í ferlið þegar verið er að vinna nýjan vef. Í myndbandinu fer Sigurjón meðal annars yfir nokkrar góðar grunnreglur við skrif á efni inn á vef og hvað þarf að varast, t.d. við framsetningu texta og mynda.

Hagnýt tól og ráð við notendaprófanir

Notendaprófanir er annar þáttur sem margir vanmeta og Sigurjón segir þá mýtu vera lífseiga að notendaprófanir séu svo dýrar. Þvert á móti sé hægt að gera mjög einfaldar en gagnlegar prófanir sem kosta lítið. Í myndbandinu fer hann yfir hagnýt ráð og nokkur tól sem hver og einn getur beitt í vinnu sinni.

(Endur)menntun

Í lok myndbandsins bendir Sigurjón síðan á ýmsar leiðir til að sækja sér þekkingu í vefmálum.