Fara í efni

Hagfræðistofnun leggur mat á þjóðhagslegt gildi ferðaþjónustu

-Úr skýrslu Hagfræðistofnunar

Nú fyrir helgi kom út og var kynnt skýrsla Hagfræðistofnunar um flug- og ferðaþjónustu á Íslandi, sem unnin var fyrir stýrihóp samgönguráðherra. Í skýrslunni koma fram athyglisverðar upplýsingar m.a. um þjóðhagslegt gildi og umfang ferðaþjónustu hér á landi.

Þar kemur fram að það er mat Hagfræðistofnunar að heildarumsvif í hagkerfinu vegna 22,8 milljarða eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi árið 2002 séu 92,2 milljarðar. Hér er ekki talin með umsvif vegna fargjalda til landsins né öll eyðsla innlendra ferðamanna í landinu. Magnús Oddsson ferðamálastjóri sat í ofangreindum stýrihóp og hann hefur tekið saman í úrdrætti nokkrar athyglisverðar niðurstöður úr skýrslunni.

-Nokkrir athyglisverðir punktar og vangaveltur

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur skilað skýrslu, sem unnin var fyrir vinnuhóp,sem samgönguráherra skipaði í það verkefni að skoða ákveðið tilboð sem Ryan Air sendi stjórnvöldum. Undirritaður sat í þessum hóp og í samstarfi hópsins þróuðust mál þannig að Hagfræðistofnun vann nokkuð viðamikla skýrsla um flug- og ferðaþjónustu á Íslandi

Hér á eftir verður varpað ljósi á nokkra þætti í umræddri skýrslu.

Fyrst er fjallað um tilboð Ryan Air og þar segir í skýrslunni:
"Ekki er með nokkrum hætti hægt að líta á tilboð Ryanair sem samning af neinu tagi, enda felast engin sérákvæði í loforðum félagsins heldur er aðeins um að ræða hluti sem verður að teljast eðlilegar afleiðingar af því að félagið hefji flug hingað til landsins. En jafnvel þó tilboð Ryanair innihéldi einhver sérákvæði er vafasamt hvort íslensk stjórnvöld ættu yfir höfuð að gera slíkan samning. ........ Fátt bendir til þess að íslensk stjórnvöld þurfi að grípa til sömu bjargráða, s.s. niðurgreiðslna, og mörg jaðarhéruð Evrópu hafa gert til þess að laða til sín ferðamenn. Ennfremur getur það ekki samrýmst jafnræði í viðskiptum né eðlilegri samkeppni að veita Ryanair meiri afslátt en öðrum flugfélögum sem venja komur sínar hingað eða eru staðsett hérlendis. ........... Málið er einfaldlega svo vaxið að íslensk stjórnvöld þurfa að móta almenna stefnu í þessu máli sem snýr eins að öllum flugfélögum sem hingað koma fremur en huga eingöngu að undantekningum. Sú stefnumörkun þarf að taka mið af heildarhagsmunum sem í húfi eru hvort sem það er uppbygging ferðamannaiðnaðar, starfsemi flugstöðvarinnar eða skatttekjur ríkisins"

Í skýrslunni er síðan fjallað mikið um ferðaþjónustu, umfang, hlutverk stjórnvalda og síðast en ekki síst um mikil efnahagsleg áhrif atvinnugreinarinnar. Þessi skýrsla í heild er mjög gott innlegg í þá vinnu við gerð ferðamálaáætlunar sem nú stendur yfir og í reynd ómetanlegt að fá þessa fagvinnu Hagfræðistofnunar nú til frekari stuðnings því sem þar verður sett fram. Eftirfarandi segir t.d. um hlutverk ríkisins og þetta styður að mínu mati Þá skoðun að opinber aðkoma að málaflokknum hafi verið rétt m.a. markaðsmálum:

"Þegar til heildar er litið ættu íslensk stjórnvöld að fylgja ákveðnu hlutleysi gagnvart ferðaþjónustunni líkt og öðrum atvinnugreinum landsins og leyfa greininni að byggjast að frumkvæði og á forsendum einkageirans. Stjórnvöld eiga ekki að ívilna greininni á þeirri einni forsendu að hún skapi gjaldeyri, en jafnframt ekki refsa henni með skattheimtu umfram það sem þekkist hjá öðrum greinum. ..... Í þessu efni verða stjórnvöld að móta almennar reglur og móta stefnuna með forsjálum hætti fremur en að hrekjast frá einni undantekningu til annarrar. Þetta þarf þó ekki að þýða að stjórnvöld ættu ekki að hafa nein afskipti af þróun ferðamannaiðnaðar hérlendis. Þau þurfa að huga sérstaklega vel að markaðsbrestum sem gætu hindrað þróun í greininni og ennfremur að reyna að stýra notkun á innviðum og framleiðslufjármunum til þess að auka þjóðhagslegan ábata sem greinin gefur af sér. Stærsti og augljósasti markaðsbresturinn í þessu tilliti felst í því að illfært er að ná nægilegri landkynningu.
Vegna þess að slík kynning er almannagæði sem nýtist öllum ferðaþjónustuaðilum hefur hvert fyrirtæki um sig ekki nægjanlega hvata til þess að fjármagna slíka kynningu. ............Af þessum sökum verða stjórnvöld að taka að sér að samhæfa slíka kynningu fyrir greinina sem heild, t.d. með því að veita hluta af þeim skatttekjum sem greinin skapar til kynningarmála eða búa til sérstakan tekjustofn í þessu efni.
Þegar til framtíðar er litið er líklegt að aðalviðfangsefni stjórnvalda verði ekki að fjölga ferðamönnum heldur að tryggja hámarksafrakstur í greininni og jafna álagið á land og þjóð."

Þá er eftirfarandi ekki síður athyglisvert frá Hagfræðistofnun og vekur til umhugsunar um mögulega aðkomu stjórnvalda:

"Flest bendir til þess að þjóðhagslegur ábati við hvern þann gest sem ratar hingað lands sé mjög mismunandi eftir því hvar hann kemur og hvar hann dvelst. Í þessu efni er því mikil nauðsyn að stilla saman bætta arðsemi, byggðastefnu og náttúruvernd með þeim hætti að efla enn frekar þá viðleitni að dreifa ferðamannastraumnum um landið og yfir árið. Það gæti ef til verið verjandi fyrir hagkvæmnissakir að stjórnvöld myndu aðstoða við markaðssetningu þeirra héraða hérlendis sem hafa verið síður vinsælli meðal ferðamanna ......... Og þá einkum að beina ferðamannastraumnum frá Reykjavík og til landsbyggðarinnar. Ferðaþjónustan er í þessu tilliti mjög mikilvæg fyrir landsbyggðina vegna þess að hún byggir á notkun staðbundinna aðfanga sem ekki er hægt að flytja úr stað, s.s. náttúrufegurð. Ef það heppnaðist væri verið að jafna álagið á innviðum landsins og bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með hagkvæmum hætti."

Þá þykir mér athyglisvert hvernig Hagfræðistofnun fjallar um þjóðhagslegan ábata og færir rök fyrir honum. Þetta hefur e.t.v allt verið fjallað um áður en hér er þetta sett fram af Hagfræðistofnun á faglegan hátt og gefur þessu máli öllu meiri þyngd og okkur meiri sannfæringu fyrir því sem haldið hefur verið fram:

"Hægt er að nefna nokkrar leiðir um hvernig ferðaþjónustan hefur skapað þjóðhagslegan ábata hérlendis:

Bætt framleiðni vinnuafls: Sköpun nýrra starfa í ferðaþjónustu sem gefur fólki tækifæri til að afla sér hærri tekna en ella hefði orðið, að gefinni menntun, búsetu og starfsþjálfun.
Bætt framleiðni einkafjármagns: Aukin nýtni fastafjármuna vegna meiri veltu hjá fyrirtækjum sem tengjast ferðaþjónustu með beinum eða óbeinum hætti, s.s. þjónustu-, flutninga- og afþreyingarfyrirtækja.
Bætt framleiðni opinbers fjármagns og innviða: Hlutdeild í kostnaði vegna notkunar innviða (e. infrastructure) íslensks þjóðfélags, svo sem samgöngumannvirkja, sem kemur fram með beinum og óbeinum hætti til íslenska ríkisins. Hagræðið kemur einkum fram ef notkun landsmanna sjálfra er fremur lítil og aukinn fjöldi notenda tefur ekki fyrir þeim sem þegar nýta sér umferðarmannvirkin."

Um þjóðhagslegan ábata ferðaþjónustunnar vegna nýtingar samgöngumannvirkja er fjallað og hér sérstaklega um flugið:

"Þjóðhagslegur ábati ferðamennskunnar vegna samnýtingar samgöngumannvirkja er líklega mestur í flugsamgöngum við útlönd. Mikill fastur kostnaður fylgir flugrekstri og ákveðin lágmarksfjölda farþega þarf til þess að halda uppi tíðni ferða og fjölda áfangastaða. Svo má segja að fjöldi erlendra farþega lækki meðalkostnað við ferðalög Íslendinga sjálfra. Ísland hefur þurft að byggja upp flugumferð með erlendum farþegum til þess að tryggja tíðni ferða og fjölda áfangastaða. Hér er bæði um að ræða erlenda ferðamenn til Íslends en einnig farþega sem Icelandair flytur á milli Bandaríkjanna og Evrópu með viðkomu hérlendis, enda komu 75% af fargjaldatekjum Icelandair af erlendri farmiðasölu árið 2002. "

"Loks er ekki hægt að skilja við þessa umræðu án þess að geta sérstaklega um markaðsstarf Flugleiða sem hafa auglýst Ísland markvisst sem áfangastað og hafa um nokkra hríð lagt meira fram en nokkuð annað fyrirtæki til landkynningar fyrir ferðaþjónustu hérlendis. Þetta starf hefur lagt allmikið af mörkum til þess að fjölga ferðamönnum til landsins. Slík landkynning er að miklu leyti almannagæði þar sem hún gagnast allri ferðaþjónustunni sem heild og er aðeins fýsileg fyrir Flugleiði vegna þess hve fyrirtækið hefur stóra markaðshlutdeild í ferðaþjónustu og fær útlagðan kostnað af töluverðu leyti til baka án þess að deila að með öðrum."

Eftirfarandi setning í skýrslunni finnst mér athyglisverð og styður þá skoðun að markaðs- og upplýsingaþátturinn sé afgerandi í vextinum:

"Svo virðist sem vöxtur í fjölda ferðalanga hingað til lands ráðist af dreifð upplýsinga meðal væntanlegs markaðshóps"

Í lok skýrslunnar eru skoðuð efnahagsáhrif erlendra ferðamanna með tilliti til beinna áhrifa, óbeinna og afleiddra áhrif. Þessi hluti tel ég að verði sá sem mesta athygli vekur enda eru hér settar fram í lokin tölur, sem eru svo ekki sé meira sagt mjög áhugaverðar. Fjallað er um bein efnahagsleg áhrif og síðan óbein og afleidd. Þessi hugtök eru skýrð mjög nákvæmlega í skýrslunni og sett skipulega fram. Hér er eftir því sem ég kemst næst í fyrsta sinn á faglega hátt reynt að reikna efnahagslegu áhrifin í krónum á hagkerfið og í skýrslunni er sýnt hvernig margfaldararnir eru fundir fyrir þessa atvinnugrein. Þetta er mikilvæg grunnvinna, sem er að mínu mati ómetanleg, þegar farið verður að vinna nýrri ferðamálaáætlun fylgi.

Ég læt eftirfarandi texta vera hér óstyttan, en bendi á að þar segir að veltan sem ferðaþjónustan hafi skapað á árinu 2002 vegna eyðslu erlendra ferðamanna í landinu að upphæð 22, 8 milljarðar sé 92,2 miljarðar (Jafngildir ca. 99,4 árið 2003). Minni á að hér er því ekki tekið tillit til flugfargjalda né veltu vegna innlendra ferðamanna.

Það er skoðun skýrsluhöfunda að efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu hér á
landi séum mun meiri en áður hafi verið bent á. Við höfum þó verið að benda á það undanfarinn áratug a.m.k. en hér er það gert með ákveðinni upphæð og með viðurkenndum reikniaðferðum hagfræðinnar sem við eigum og munum nýta okkur.

"Með gögnum um útgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi og með fræðilegum aðferðum sem lýst er í viðauka má setja magnbundinn mælikvarða á efnahagsáhrif ferðamanna, mæld í krónum. Eins og fyrr greinir er hægt að tengja saman hin beinu og óbeinu áhrif efnahagsumsvifa með margföldurum
Með því að taka ferða og dvalarkostnað erlendra ferðamanna á Íslandi árið 2002 og skipta þeim útgjöldum á einstakar atvinnugreinar má umreikna þessa eftirspurn í framleiðsluáhrif. Skipting í greinar er fengin með útgjaldakönnun Ferðamálaráðs sem áður hefur verið vikið að.

Efnahagsáhrif útgjalda ferðamanna innanlands bein, óbein og afleidd áhrif:

Framleiðsla milljarðar króna
Bein áhrif................................................22,8
Óbein og afleidd áhrif............................69,4
Samtals...................................................92,2
Útreikningar: Hagfræðistofnun

Af þessum tölum má sjá að þau heildarumsvif sem verða til í hagkerfinu vegna útgjalda ferðamanna eru um 92,2 milljarðar. ....... Þetta svarar til um 5% heildarframleiðslu og veltu árið 2002. Það er áhugavert að skoða þessar stærðir með tilliti til fjölda ferðamanna. Árið 2002 var fjöldi þeirra 279.600. Bein áhrif af þeim nema 82 þúsund krónum í eyðslu á ferðamann. Ef á hinn bóginn er tekið tillit til efnahagsáhrifa útgjalda innanlands af hverjum ferðamanni á veltu og framleiðslu nemur sú fjárhæð um 330 þúsund krónum á hvern ferðamann. Í þessum tölum er ekki tekið tillit til þeirra tekna sem verða af þeim flugfargjöldum sem þeir greiða til að komast til landsins. Ítreka skal þær ströngu forsendur sem gilda um túlkun þessara efnahagsáhrifa sem getið er um í kafla 6.4.
Umsvif ferðaþjónustunnar á Íslandi eru veruleg. Hvort sem litið er til beinna, óbeinna eða afleiddra áhrifa. Þegar þessar tölur eru skoðaðar í samanburði við aðrar úttektir má geta þess að Þjóðhagsstofnun gaf út skýrslu árið 2000 þar sem leitast var við að greina framlag ferðaþjónustunnar til vergrar landsframleiðslu árið 1999. Niðurstaða þeirrar skýrslu var á þá leið að hlutdeildin væri í kringum 4,5% með því að skilgreina þær atvinnugreinar í þjóðhagsreikningum sem teldust til ferðaþjónustunnar. Þessi stærð er ekki fyllilega samanburðarhæf við þá hlutfallsstærð sem hér hefur verið reiknuð út, því ekki hefur verið tekið tillit til tekna af flugfargjöldum af erlendum ferðamönnum en því til viðbótar hefur verið leiðrétt fyrir áhrifum ferðaþjónustunnar á aðrar greinar. Ef tekið er tillit til erlendra flugfarþega í þessum útreikningum yrðu áhrif erlendra ferðamanna á sölu og veltu í hagkerfinu með þeim hætti að 8,22% megi rekja til útgjalda erlendra ferðamanna vegna ferðakostnaðar hingað og útgjöldum sé tekið tillit til beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa. Það er því ljóst að vægi ferðaþjónustunnar að teknu tilliti til áhrifa flugfargjaldanna eru allnokkuð hærra en niðurstöður Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1999 gáfu til kynna."

Magnús Oddsson - 9. Janúar 2004

Skýrsluna í heild sinni má nálgast sem PDF-skjal á vef Samgönguráðuneytisins Smellið hér (560 KB)