Hægt að fylgjast með notkun ferðagjafa í Mælaborði ferðaþjónustunnar

Nú er hægt að fylgjast með notkun ferðagjafa í Mælaborði ferðaþjónustunnar. Hægt er að fylgjast með notkuninni eftir landssvæðum og flokkum ferðaþjónustu. Þá er einnig hægt að sjá hvaða tíu fyrirtæki hafa fengið flestar ferðagjafir í sinn hlut. Tölurnar eru uppfærðar daglega.

Fylgst með notkun í Mælaborði ferðaþjónustunnar

Ferðagjöfin fór í loftið þann 18. júní síðastliðinn og nú þegar hafa um 28 þúsund einstaklingar notað gjöfina. Í Mælaborði ferðaþjónustunnar er hægt að fylgjast með hvar ferðagjöfin er notuð eftir landssvæðum. Þá er einnig hægt að sjá í hvaða tegundir ferðaþjónustu gjöfin er notuð, en í dag hefur ferðagjöfin helst verið notuð í gistingu, afþreyingu og veitingar. Í mælaborðinu er einnig hægt að sjá hvaða tíu fyrirtæki hafa fengið flestar ferðagjafir.

Ferðagjöfin styður við íslenska ferðaþjónustu

Ferðagjöfin er hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda og liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Á vef Ferðamálastofu  www.ferdalag.is má sjá þau fyrirtæki sem taka á móti Ferðagjöfinni, þar með talin hótel, gistiheimili, afþreyingarfyrirtæki, bílaleigur og veitingastaði auk þess sem hægt er að sjá ýmis tilboð í tengslum við verkefnið. Enn er hægt að skrá fyrirtæki til leiks, en það er gert á Island.is

 

 


Athugasemdir