Fara í efni

Guðrún Bergmann fær viðurkenningu mánaðarins hjá Green Globe 21

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann, ferðaþjónustubóndi á Hótel Hellnum á Snæfellsnesi, hlotnaðist á dögunum sá heiður að vera valin ?Champion of the Month? hjá Green Globe 21. Viðurkenninguna fær Guðrún fyrir framlag sitt til eflingar sjálfbærrar ferðaþjónustu á Íslandi og útbreiðslu Green Globe 21.

Green Globe 21 eru sem kunnugt er alþjóðleg samtök fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem vilja starfa út frá markmiðum um sjálfbæra þróun. Þátttakan byggist á vottun á umhverfisvænum starfsháttum þar sem tekið er mið af umhverfislegum, efnahagslegum og félagslegum þáttum. Guðrún hefur unnið ötullega að umhverfisvænni ferðaþjónustu hér á landi og innt af hendi mikið frumkvöðlastarf á því sviði undir merkjum Green Globe 21. Á það bæði við um hennar eigin ferðaþjónusturekstur og einnig starf með öðrum, svo sem vottun 5 sveitarfélaga og þjóðgarðs á Snæfellsnesi og samstarf við Ferðaþjónustu bænda. Þá hefur hún verið óþreytandi í að kynna Ísland og Green Globe 21 á erlendum vettvangi. Því er ljóst að Guðrún er vel að þessari viðurkenningu komin.