Fara í efni

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í jókst um 17% í júlí

© arctic-images.com
© arctic-images.com

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í júlí jókst alls um 17,4% frá sama mánuði í fyrra og nam liðlega 13,1 milljörðum kr. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Skipting eftir útgjaldaflokkum

Hver erlendur ferðamaður greiddi með greiðslukorti sínu hér á landi 106 þús. kr. að meðaltali í júlí. Mestu er varið í gistingu, næstmestu í verslun og þar næst í ýmsa skipulagða ferðaþjónustu eins og skoðunarferðir og hvalaskoðun. Veitingaþjónusta er í fjórða sæti yfir þá útgjaldaflokka sem erlendir ferðamenn greiða fyrir þjónustu með kortum sínum.

Tvöföldun í annari gistingu en hótelum

Aðrir gististaðir en hótel virðast eiga vaxandi vinsældum að fagna meðal erlendra ferðamanna. Þannig jókst kortavelta annarra gististaða en hótela í júlí um 95% frá sama mánuð í fyrra og nam 20 millj. kr. Ferðamenn virðast þannig sækja í auknum mæli gistingar utan hefðbundinna hótela.

Auknar ferjusiglingar

Mikil aukning hefur orðið í greiðslum erlendra ferðamanna fyrir ferjuflutninga. Þannig jukust greiðslur í ferjusiglingar um 230% á milli ára. Líklega eru það auknar vinsældir siglinga með Herjólfi til Vestmannaeyja sem hafa mest áhrif. Erlendar kortagreiðslur til bílaleiga jukust um 20% frá sama mánuði í fyrra og námu 1,1 milljarði kr.

Dagvöruverslun og föt

Erlendir ferðamenn greiddu 596 millj. kr. með kortum sínum í júlí í dagvöruverslunum sem var 20% aukning frá síðasta ári. Þá keyptu útlendingar föt hér á landi fyrir 505 millj. kr. í júlí, en það nemur þriðjungi af meðalveltu íslenskrar fataverslunar í hverjum mánuði á síðasta ári. Hins vegar er nánast engin aukning í minjagripaverslunum á milli ára.

Kortavelta

Greiðslur erlendis ekki innifaldar

Kortavelta útlendinga sem kaupa farmiða eða pakkaferðir til Íslands frá heimalandi sínu eru ekki innifaldar í þessum tölum nema kortavelta í gegnum íslenska færsluhirða. Þannig eru erlendar greiðslur vegna flugferða hingað til lands og greiðslur til erlendra ferðaskrifstofa eða annarra milliliða ekki meðtaldar. Þá eru úttektir á reiðufé úr hraðbönkum ekki innifaldar í þessum tölum.

Svipuð útgjöld á hvern ferðamann

Greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann í júlí var um 106 þús. kr., ef miðað er við komur erlendra ferðamanna til landsins í mánuðinum samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu. Útgjöld á hvern ferðamann eru svipuð á milli ára í krónutölum. Hins vegar eru nokkrar sveiflur í útgjöldum erlendra ferðamanna eftir mánuðum eins og kemur fram í súluritinu hér að ofan.

Um kortaveltu ferðamanna

Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta.

Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaiðnaðar. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum en ekki eftir uppgjörstímabilum og er samtalan því eilítið frábrugðin þeim gögnum sem Seðlabankinn birtir.

Nánari upplýsingar veita Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is, GSM 822 1203) og Pálmar Þorsteinsson (palmar@bifrost.is, GSM 868 8578)