Fara í efni

"Grænt farfuglaheimili" á Bíldudal

Grænt farfuglaheimili á Bíldudal1
Grænt farfuglaheimili á Bíldudal1

Til að hvetja rekstraraðila farfuglaheimila á Íslandi til að vinna markvisst að umhverfismálum ákvað stjórn Farfugla árið 2003 að þau heimili sem uppfylla ákveðin viðmið á sviði umhverfismála fái heimild til að kalla sig Græn farfuglaheimili. Því til staðfestingar fá þau að nota umhverfismerki samtakanna. Þessi viðmið byggja á almennum gæðastöðlum sem öll farfuglaheimili þurfa að uppfylla en til að fá heimild til að nota umhverfismerkið þurfa heimilin auk þess að uppfylla ýmis viðbótarskilyrði sem tengjast umhverfismálum.

Á nýafstöðnu Gestgjafamóti Farfugla fékk Farfuglaheimilið á Bíldudal heimild til að kalla sig Grænt farfuglaheimili. Nú eru því tólf farfuglaheimili hérlendis sem eru einkennd vegna góðrar frammistöðu í umhverfismálum, tíu þeirra bera merkið Grænt farfuglaheimili og tvö bera Norræna umhverfismerkið Svaninn.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta  hefur unnið með Farfuglum síðan 2004 að þróun viðmiða fyrir Græn farfuglaheimili og gert úttektir á þeim heimilum sem sótt hafa um merkið. Í úttektunum hefur komið í ljós að umhverfisstarf þessara heimila hefur skilað sér m.a. í jákvæðri ímynd, sparnaði, áhuga gesta og ánægðari eigendum. Óhætt er að mæla sérstaklega með Grænum farfuglaheimilum fyrir alla sem eiga leið um landið.

"Farfuglar óska gestgjöfum og starfsfólki á Bíldudal innilega til hamingju með viðurkenninguna og vonumst til að hún verði fleirum hvatning til góðra verka í þessum mikilvæga málaflokki," segir í frétt frá Farfuglum.

Mynd: Silja Baldvinsdóttir og Björn M. Magnússon gestgjafar á Farfuglaheimilinu á Bíldudal.