Gosið hefur áhrif á heimsóknir erlendra kylfinga

Gosið hefur áhrif á heimsóknir erlendra kylfinga
golf gos

Golf Iceland og meðlimir samtakanna hafa fengið mikið af fyrirspurnum frá erlendum aðilum sem áætluðu að koma í golfferðir til Íslands í sumar, um ástandið hér eftir að gos hófst. Ljóst er að eitthvað er um afbókanir.

?Golf Iceland hefur eins og aðrir reynt að koma þeim skilaboðum út til söluaðila að hér séu allir golfvellir opnir og önnur þjónusta með eðlilegum hætti. Mest er eðlilega spurt um ástandið á Suðurlandi. Til að sýna fram á hve allt gengur sinn vanagang á golfvöllunum hafa erlendir golfmiðlar m.a. birt fréttir og myndir af golfmótum á völlum á Suðurlandi undanfarnar vikur,? segir Magnús Oddsson hjá Golf Iceland.

Óvissan vegur þyngst
Hann segir ljóst er að þrátt fyrir þessa stöðu þá eru það möguleg áhrif öskunnar á flug til og frá landinu,sem virðast vega þyngst hjá fólki, óvissan um það hvort gestir geti átt það á hættu að geta ekki ferðast á áætluðum ferðadögum. Það er sá þáttur sem ræður því úrslitum um hvort fólk heldur við sín áform um Íslandsferð eða leitar annað.

150 erlendir kylfingar afbóka í Kiðjabergi
Veruleg aukning var í bókunum vegna golfferða í sumar eins og kom fram á aðalfundi Golf Iceland nú í apríl. Þessi óvissa sem fólk metur varðandi áhrif ösku á flugið hefur því miður orðið til þess að mikið hefur verið um afbókanir golfferða fyrir sumarið þrátt fyrir gott útlit fyrir örfáum vikum. Sem dæmi nefnir Magnús að hjá Golfklúbbi Kiðjabergs voru í apríl komnar um 300 bókanir erlendra aðila fyrir sumarið, sem var mikil aukning frá fyrra ári. Undanfarnar vikur hefur þessum bókunum fækkað um 150 kylfinga. Er þar bæði um að ræða afbókanir hópa og einstaklinga.

?Áfram verður unnið að því að koma réttum upplýsingum um ástandið til söluaðila og fjölmiðla eins og verið hefur og vonandi leiðir það ásamt því að ástandið batni  hvað varðar eldgosið til þess að takist að snúa þessari þróun við og fjölga erlendum gestum á golfvöllunum,? segir Magnús.


Athugasemdir