Fara í efni

Göngum um Ísland og Fjölskyldan á fjallið

FolkiGonguferd
FolkiGonguferd

Í fyrra ákvað Ungmennafélag Íslands, með styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu, að fara af stað með átak til þess að fá landsmenn í gönguferðir um náttúru landsins eftir aðgengilegum og stikuðum gönguleiðum. Afrakstur þessa átaks er leiðabókin Göngum um Ísland sem kom fyrst út í fyrra og heimasíðan ganga.is þar sem er að finna 144 stuttar gönguleiðir víðsvegar um landið. Helgi Arngrímsson starfsmaður verkefnisins hefur nú safnað á þriðja hundrað gönguleiða sem verða gefnar út í nýrri leiðabók, sem kemur út nú á næstu dögum. Leiðabókinni verður dreift ókeypis um land allt.

Póstkassar á 20 fjöllum
Fjölskyldan á fjallið miðar að því að hvetja landsmenn til að fara í fjallgöngur og þá sérstaklega fjölskyldufólk eins og nafnið gefur til kynna. Póstkassar með gestabókum eru settir á tuttugu fjöll víða um landið og fjölskyldufólk hvatt til að rölta á fjallið og skrá nafn sitt í gestabækurnar. Það eru héraðssamböndin sem hafa tilnefnt fjöll á sínum svæðum í verkefnið. Upplýsingar um þessi fjöll verður að finna í Leiðabókinni.

Samstarf UMFÍ og Ferðamálaráðs
Ferðamálaráð Íslands og aðilar verkefnisins Göngum um Ísland stefna að enn frekara átaki í þessum málum. Það starf sem verið er að fara af stað með núna er fólgið í því að safna öllum þeim upplýsingum sem til eru um gönguleiðir á Íslandi og hafa þær aðgengilegar á einum stað. Leitað verður til ferðamálafulltrúa og aðila heima í héraði sem kunnugir eru málaflokknum. Með þessu er verið að stuðla enn frekar að uppbyggingu og aðgengi gönguleiða á Íslandi og hvetja fólk til að ganga um landið og kynnast því þar með á annan og heilsusamlegan hátt. Stefnt er að því að opna nýjan og endurbættan gönguvef á vordögum 2004 og munu upplýsingarnar verða á áðurnefndri vefslóð.