Fara í efni

Góð reynsla af nýju fyrirkomulagi á vistun Ráðstefnuskrifstofu Íslands

Í síðustu viku lauk IMEX kaupstefnunni í Frankfurt en hún er talin mikilvægasta og dýrasta sýning á þessum markaði í heiminum. Líkt og undanfarin ár tók Ráðstefnuskrifstofa Íslands (RSÍ) ásamt aðildarfélögum sínum þátt í kaupstefnunni. Samtals voru á þriðja tug Íslendinga frá 11 fyrirtækjum á IMEX að þessu sinni. Mikilvæg tengsl og viðskipti eiga sér stað á sýningu sem þessari.

Hárrétt ákvörðun
Síðastliðið haust var tekin ákvörðun um áframhaldandi vistun RSÍ hjá Ferðamálaráði og jafnframt var sú breyting á að ábyrgðin á verkefninu færðist yfir á markaðssvið Ferðamálaráðs. Þetta var m.a. gert í því skyni að treysta enn betur samstarf RSÍ við skrifstofur Ferðamálaráðs erlendis. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segist nú enn sannfærðari en áður að með ofangreindum breytingum hafi verið tekin hárrétt ákvörðun. ?Við skipulagningu og framkvæmd á þáttöku Íslands á IMEX nutum við Anna Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri RSÍ, ómetanlegs stuðnings Hauks Birgissonar, Ninu Kreutzer og annars starfsfólk á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Frankfurt. Ég held að þarna hafi verið sýnt með mjög afgerandi hætti að Ferðamálaráð tekur það hlutverk sitt ákaflega alvarlega, að vista RSÍ og styðja við starfsemina úti á mörkuðunum. Starfsmenn okkar úti á mörkuðunum eru sérfræðingar á sínu svæði og engum blöðum um það að fletta að þetta fyrirkomulag að nýta þá í hið beina markaðsstarf, hvort sem er á einstaka sýningum eða allt árið um kring, mun gagnast aðildarfélugum RSÍ best,? segir Ársæll. Ferðamáalráð er sem kunnugt er með skrifstofur í Danmörku fyrir Norðurlönd, í Frankfurt fyrir Evrópu, í New York fyrir Norður Ameríku og sérhæfðan starfsmann í Reykjavík fyrir Bretlandsmarkað.

Hefur þegar sannað sig
Ársæll segir jafnframt að engum dylst lengur mikilvægi ráðstefnu- og hvatningaferðamarkaðarins fyrir íslenska ferðaþjónustu. ?Í Norður Ameríku hefur skrifstofa Ferðamálaráðs árum saman unnið á sambærilegan hátt að viðgangi þessa hluta markaðarins m.a. með því að sjá alfarið um Motivation Show (IT&ME) í Chicago í nafni RSÍ. Skrifstofan í Kaupmannahöfn, þó ung sé, tekur þetta líka alvarlega og hefur þegar unnið að sértækum verkefnum. Sömu sögu er að segja um verkefnin í Bretlandi sem okkar starfsmaður hefur unnið heilshugar að í samstarfi aðila,? segir Ársæll.

Ráðstefnu-og tónlistarhús mjög miklivægt
Að sögn Ársæls bíður atvinnugreinin óþreyjufull eftir að nýtt ráðstefnu- og tónlistarhús verði tekið í notkun eftir nokkur ár. ?Það mun reynast einn mikilvægasti þátturinn í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað fyrir fundi og ráðstefnur í framtíðinni. Það er einnig lykill að áframhaldandi markaðssókn utan háannar í ferðaþjónustu? segir Ársæll að lokum.

Vefur Ráðstefnuskrifstofu Íslands

Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.