Gistiskýrslur 2005 komnar út

Gistiskýrslur 2005 komnar út
Gisting 2005

Út er komið ritið Gistiskýrslur 2005 þar sem birtar eru niðurstöður gistináttatalningar Hagstofu Íslands fyrir árið 2005. Ritið er aðgengilegt á vef Hagstofunnar og einnig er hægt að fá það í prentaðri útgáfu.

Í Gistiskýrslum 2005 kemur fram að heildarfjöldi gistinátta var 2.232.911 árið 2005 sem er 4,8% aukning frá fyrra ári. Gistinóttum fjölgaði frá árinu 2004 á hótelum og gistiheimilum um 6,8%, orlofshúsabyggðum um 25,7%, í skálum í óbyggðum um 3,4% og á farfuglaheimilum um 0,2%. Gistinóttum fækkaði hins vegar á heimagististöðum um 8,2%, svefnpokagististöðum um 3,4% og á tjaldsvæðum um 2,8%.  

Mismunandi eftir landshlutum
Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema tveimur. Aukningin var mest á Suðurnesjum, 10,4%, Austurlandi, 8,4% og á Suðurlandi, 8,0%. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 6,8%, á Vesturlandi um 5,0% og á Norðurlandi vestra um 0,7%. Gistinóttum fækkaði um 4,9% á Norðurlandi eystra og um 1,2% á Vestfjörðum, en hana má nánast eingöngu rekja til samdráttar á tjaldsvæðum og á heimagististöðum. Í heftinu eru niðurstöður talningarinnar birtar í töflum, myndum og yfirlitum.

 

 


Athugasemdir