Gistinóttum í september fjölgaði um 22%

Gistinóttum í september fjölgaði um 22%
Gisting sept 06

Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 114.600 en voru 93.900 í sama mánuði árið 2005, sem er fjölgun um 20.700 nætur, eða 22%. Hagstofan, sem sér um talninguna, vekur athygli á að eingöngu er átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Fjölgun í öllum landshlutum
Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 6.500 í 9.300 milli ára, sem er 43% aukning. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum úr 3.700 í 4.700, eða um 27%. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum um tæp 24%, úr 8.900 í 11.000. Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 20% milli ára. Þar fór gistináttafjöldinn úr 64.600 í 77.500 milli ára. Á Suðurlandi fóru gistinætur á hótelum í september úr 10.200 í 12.100 milli ára og fjölgaði þar með um rúm 18%. Fjölgun gistinátta skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 23% og útlendinga um22%. Útlendingar vega þó þyngra þar sem gistinætur þeirra eru rúm 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í september síðastliðnum. 

Gistirými á hótelum í septembermánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.740 í 3.973, 6% aukning og fjöldi rúma úr 7.566 í 7.995, 6% aukning. Hótelin eru jafnmörg bæði árin, 75.

Fjölgun um 11% frá áramótum
Á fyrstu níu mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum um 11% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 848.700 í 943.700 milli ára. Fjölgun varð á öllum landsvæðum. Hlutfallslega varð aukningin mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinóttum fjölgaði um 23%. Á Norðurlandi nam aukningin 13%, Suðurlandi 11%, Austurlandi 10% og á höfuðborgarsvæðinu 10%. Fjölgun gistinátta á þessu tímabili skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 13% og útlendinga um11%. Eins og áður sagði vegur fjölgun gistinátta útlendinga þyngra þar sem gistinætur þeirra eru um 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum þetta tímabil. Sömu sögu er að segja um gistinætur á höfuðborgarsvæðinu, en þær nema um 65% af heildarfjölda gistinátta.

Mjög ánægjuleg þróun
Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir mjög ánægjulegt að sjá hve mikil aukning sé í gistinóttum á hótelum í september. "Það er hlutfallslega meiri aukning hvað varaðar erlendu gestina en varð í fjölda þeirra sem hingað komu í september. Á því eru að mínu mati tvær skýringar mögulegar: Í fyrsta lagi gæti verið um færslu að ræða á milli gistitegunda þannig að meiri aukning hafi orðið í gistinóttum hótela á kostað annarrar gistingar. Gestir séu að færa sig í aukin þægindi. Hin skýringin, sem við auðvitað vonum að sé raunin, er að okkar erlendu gestir í september í ár séu að dvelja lengur hér en var í fyrra. Hvor skýringin er rétt verður ekki séð fyrr en tölur um heildargistinætur liggja fyrir á næsta ári," segir Magnús.

Loks bendir Magnús á það sem áður hefur komið fram, þ.e. hvernig hægt og bítandi hefur tekist að lengja háönnina þannig að september er í umfangi hliðstæður og júní fyrir örfáum árum. Þá sé ekki síður ánægjulegt að fylgjast með auknu umfangi innlenda markaðarins í haust.

 


Athugasemdir