Fara í efni

Gistinóttum í febrúar fjölgaði um 3%

Gisting feb 2011
Gisting feb 2011

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í febrúar síðastliðnum. Tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum voru 80.400 en voru 77.800 í sama mánuði árið 2010. Þetta er fjölgun upp á 3%. Gistinætur erlendra gesta voru um 76% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í febrúar en gistinóttum þeirra fjölgaði um 5% á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um 2% samanborið við febrúar 2010.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi og samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða. Á höfðuborgarsvæðinu voru 60.500 gistinætur í febrúar sem er 3% aukning frá fyrra ári. Á Suðurlandi voru 10.100 gistinætur sem er 25% aukning samanborið við febrúar 2010. Gistinætur á Suðurnesjum voru 3.900 í febrúar sem er 15% aukning frá fyrra ári og á Austurlandi var fjöldi gistinátta 1.000 samanborið við 700 í febrúar 2010. Gistinætur á Norðurlandi voru 3.700 í febrúar og fækkaði um 33%. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru 1.200 gistinætur í febrúar samanborið við 1.600 í febrúar á síðasta ári.