Fara í efni

Gistinóttum fjölgaði um 10% árið 2003

gistinaetur13
gistinaetur13

Hagstofan hefur gefið út tölur um fjölda gistinátta í desember síðastliðnum og einning á öllu árinu 2003. Þar kemur fram að gistinóttum á hótelum í desember fjölgaði um tæp 19% milli ára og um 10% sé litið til ársins í heild.

Mest fjölgun á höfuðborgarsvæðinu í desember
Gistinætur á hótelum í desember síðastliðnum voru 34 þúsund en voru 28 þúsund í sama mánuði árið 2002. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Suðurlandi (-14,8%). Mest fjölgaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu (22,5%) og á Suður-nesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum (12,7%). Á Norðurlandi stóð gistináttafjöldinn nánast í stað (0,8%).

10% fjölgun árið 2003
Árið 2003 voru gistinætur á hótelum 880 þúsund, en þær voru 802 þúsund árið 2002. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum árið 2003 samanborið við árið á undan. Mesta aukningin varð á Suðurlandi 22,5%, þar fór gistináttafjöldinn úr 80 þúsundum í 98 þúsund á milli ára. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum nam aukningin 11,5% og á höfuðborgarsvæðinu var 8,9% aukning. Gistinóttum á Austurlandi fjölgaði um 4,1% og 1,8% á Norðurlandi.

Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 7,5% þegar þær fóru úr 159 þúsund í 171 þúsund milli ára. Gistinóttum útlendinga fjölgaði úr 643 þúsundum í 708 þúsund sem er 10,1% aukning milli ára.

Gestakomur voru alls 433 þúsund árið 2003. Gestakomur Íslendinga voru 110 þúsund og útlendinga 322 þúsund. Meðaldvalarlengd hótelgesta árið 2003 var sú sama og árið 2002, eða 2 nætur. Þá dvelja Íslendingar að meðaltali 1,6 nætur á hótelum og útlendingar 2,2 nætur.

Talnaefni á vef Hagstofunnar