Fara í efni

Gistinóttum fækkaði um tæp 9% í ágúst

Gisting ágúst 2010
Gisting ágúst 2010

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta á hótelum í ágúst síðastliðnum. Gistinæturnar þá voru 187.700, samanborið við 205.200 í sama mánuði árið 2009.

Fækkun gistinátta í ágúst náði til allra landsvæða en hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á Norðurlandi og Austurlandi eða um rúm 18%. Gistinóttum á Norðurlandi fækkaði úr 24.000 í 19.600 og á Austurlandi voru 10.300 gistinætur samanborið við 12.600 í ágúst 2009. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum úr 30.300 í ágúst 2009 í 26.700 eða um 12 %.  Á höfuðborgarsvæðinu voru 113.400 gistinætur í ágúst sem er 6% minna en í fyrra, á Suðurnesjum fækkaði gistinóttum um 4% og á Vesturlandi og Vestfjörðum um tæp 2% samanborið við ágúst 2009.

Fækkun gistinátta á hótelum í ágúst nær bæði til erlendra gesta og Íslendinga. Gistinóttum erlendra gesta á hótelum fækkaði um 10% samanborið við ágúst 2009 og  gistinóttum Íslendingar fækkar um 1%.

Gistinóttum á hótelum fyrstu átta mánuði ársins fækkar um 3% milli ára
Gistinætur fyrstu átta mánuði ársins voru 951.800 en voru 978.900 á sama tímabili árið 2009.  Gistinóttum fjölgaði á Vesturlandi og Vestfjörðum um 2% en á Suðurnesjum og Suðurlandi voru gistinætur svipaðar á milli ára. Á Norðurlandi og Austurlandi fækkaði gistinóttum um 5% á milli ára og gistinætur á höfuðborgarsvæðinu voru 3% færri í ár samanborið við fyrstu átta mánuði ársins 2009. Fyrstu átta mánuði ársins fækkar gistinóttum Íslendinga um 8% frá fyrra ári á meðan gistinóttum útlendinga fækkar um 2%.