Fara í efni

Gistinóttum á hótelum í nóvember fjölgaði um rúm 6% milli ára

gistinaetur3
gistinaetur3

Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum. Samkvæmt þeim er um 6% aukningu að ræða á milli ára en gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum voru 53.800 á móti 50.800 í nóvember 2003. Fyrstu 11 mánuði ársins 2004 fjölgaði gistinóttum um 9% á milli ára.

Á Suðurlandi voru gistinætur í nóvember sl. 5.380 en voru 4.070 árið 2003 sem er um 32% aukning. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um rúmlega 1.500 nætur milli ára, úr 39.000 í 40.500 (3,9% aukning). Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum nam fjölgun gistinátta rúmum 8% milli ára þegar þær fóru úr 3.750 í 4.060. Á Austurlandi stóð fjöldi gistinátta í stað milli ára (-0,2%). Á Norðurlandi átti sér stað lítilsháttar samdráttur, en gistináttafjöldinn fór úr 2.680 í 2.610 og fækkaði þar með 2,5%. Ef tölur eru skoðaðar fyrir landið í heild má sjá að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um tæp 12% en gistinóttum útlendinga um rúm 3%.

9% fjölgun fyrstu 11 mánuði ársins
Gistinætur á hótelum fyrstu 11 mánuði ársins 2004 voru 928.700 árið 2004 en voru 854.700 árið 2003 (8,7% aukning). Fjölgun gistinátta átti sér stað í öllum landshlutum nema á Norðurlandi þar sem samdrátturinn nam 1% milli ára. Aukningin var hlutfallslega mest á Austurlandi, um 22% og fór gistináttafjöldinn úr 32.500 í 39.600 milli ára. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um tæp 9%, en gistinæturnar fóru úr 104.400 í 113.600. Á höfuðborgarsvæðinu töldust gistinætur á hótelum janúar-nóvember tæplega 624.000 árið 2004, en þær voru 569.500 árið 2003 (9,6% aukning). Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum nam aukningin rúmum 6% milli ára þegar gistináttafjöldinn fór úr 68.400 í 72.500 milli áranna 2003 og 2004. Þegar litið er á gistinætur á hótelum janúar-nóvember frá árinu 1998 má sjá að aukningin nemur nærri 40% á tímabilinu sem er nánast eingöngu vegna útlendinga.

Hagstofan vill vekja athygli á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann). Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða voru 70 talsins árið 2004, en voru 66 árið á undan.

Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.

Vefur Hagstofunnar