Fara í efni

Gistináttatölur sýna stóraukin ferðalög Íslendinga um eigið land

Sjostangveidi
Sjostangveidi

Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum. Samkvæmt þeim voru gistinætur nú 150.329 talsins en voru 127.905 árið 2003. Þetta þýðir m.ö.o. 17,5% fjölgun á milli ára.

Aukning í öllum landshlutum
Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum þennan mánuð. Aukningin var mest á Austurlandi, en gistináttafjöldinn þar fór úr 7.016 í 8.746 milli ára (24,7%). Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 22,7% þegar gistinæturnar fóru úr 71.910 í 88.200 milli ára. Á Suðurlandi voru gistinæturnar á hótelum í júlí 21.747 en voru 19.071 árið 2003 (14%). Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum jókst gistináttafjöldinn í júlí um 10,8% þegar gistinæturnar fóru úr 12.317 í 13.642 milli ára. Á Norðurlandi nam aukning gistinátta rúmum 2% og hlýtur að vekja athygli að hún skuli ekki mælast meiri. Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.

Aukin ferðalög Íslendinga
Sé þróunin meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna borin saman kemur í ljós að í júlí fjölgaði gistinóttum Íslendinga á hótelum um 26,8% en gistinóttum útlendinga um 16,7%. "Tölur um fjölgun gistinátta Íslendinga á hótelum eru sérlega áhugaverðar í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um mikla fjölgun tjaldvagna og fellihýsa. Að þessu tvennu samanlögðu, þ.e. fjölgun gistinátta á hótelum og fjölgun tjald- og fellihýsa, virðist mega draga þá ályktun að ferðalög Íslendinga um eigið land hafi aukist verulega, sem sannarlega er ánægjuleg þróun. Skýringin á þessu er margþætt. Í fyrsta lagi hefur verið lögð mikil áhersla á að byggja upp áhugaverða afþreyingu fyrir innlenda gesti um land allt. Í öðru lagi hefur auknum opinberum fjármunum verið varið í að kynna landið sem ferðamannaland fyrir Íslendingum og loks má nefna að sveitarfélög og fyrirtæki víða um land hafa boðið til fjölda viðburða, sérstaklega í formi hátíða heima héraði, sem draga fjölda fólks að," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri

Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.