Gistinætur á hótelum í janúar svipaðar milli ára

Gistinætur á hótelum í janúar svipaðar milli ára
Giring jan 2010

Gistinætur á hótelum í janúar síðastliðnum voru 54.600 en voru 54.700 í sama mánuði árið 2009. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

Gistinóttum fækkaði í öllum landshlutum nema á Suðurlandi og Norðurlandi, þar var fjölgun. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 2.700 í 3.700, 38% aukning, og á Norðurlandi úr 1.600 í 2.000, sem er um 25% aukning milli ára. Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á Austurlandi úr 700 í 500 eða um 25%. Gistinætur á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 1.000 í janúar og fækkaði um 22% frá fyrra ári, á Suðurnesjum voru 2.800 gistinætur sem er 8% minna en í janúar 2009. Gistinætur á höfuðborgarsvæðinu voru svipaðar milli ára, 44.600 nú en 45.400 í janúar 2009. Fækkun gistinátta á hótelum í janúar má rekja til útlendinga. Gistinóttum útlendinga fækkaði um 1%, en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 3% milli ára.

Hagstofan vekur athygli á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.


Athugasemdir