Fara í efni

Gistihúsið - Lake Hotel Egilsstadir er nýjasti þátttakandinn í Vakanum

Hulda E. Daníelsdóttir og Gunnlaugur Jónasson með viðurkenningu Vakans.

Hulda E. Daníelsdóttir og Gunnlaugur Jónasson með viðurkenningu Vakans.

Gistihúsið - Lake Hotel Egilsstadir er nú orðið hluti af ört stækkandi hópi fyrirtækja innan Vakans með viðurkenndan veitingastað og 3ja stjörnu superior hótel. 

Staðurinn á sér langa sögu sem rekja má til íslenskrar bændamenningar. Með næmni, virðingu og smekkvísi hafa hjónin Gunnlaugur Jónasson og Hulda E. Daníelsdóttir byggt upp glæsilegan og rómantískan gististað með nútímaþægindum, heilsulind og veitingastað. Hefðbundin matargerð er gjarnan sett fram á framsækinn máta með áherslu á ferskt hráefni úr héraði.

„Þetta ferli er búið að vera mjög fræðandi og mikil naflaskoðun. Við höfum ávallt lagt mikla áherslu á að veita áreiðanlega, faglega, trausta og góða þjónustu og eitt af markmiðum okkar er að auka fagmennsku og efla gæði og öryggi á okkar vinnustað. Ég hef fulla trú á því að þær verklagsreglur sem hafa skapast í þessu ferli nýtist okkur sem gott stjórntæki varðandi innri rekstur, öryggismál og þjónustu við gesti okkar, starfsfólk og samstarfsaðila.“ Segir Hulda Elisabeth.

Hulda og Gunnlaugur voru boðin velkomin í hóp þátttakanda Vakans á uppskeruhátíð Félags ferðaþjónustubænda á Smyrlabjörgum 30. október síðastliðinn þar sem Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Hey Iceland, sem einnig situr í stýrihópi Vakans, afhenti þeim viðurkenningarnar. Gistihúsið - Lake Hotel Egilsstadir er tíundi staðurinn innan Hey Iceland sem gengur til liðs við Vakann.