Fara í efni

Gistiheimilið Brekkukot hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands

Víðast fækkun gistinátta í nóvember
Víðast fækkun gistinátta í nóvember

Í hátíðarkvöldverði á ferðamálaráðstefnunni á Radisson SAS Hótel Sögu í gærkvöld var tilkynnt um úthlutun umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2005. Að þessu sinni var það Gistiheimilið Brekkukot á Sólheimum í Grímsnesi sem hlaut verðlaunin.

Líkt og undanfarin ár var óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna, jafnframt því sem innan stofnunarinnar er fylgst með því sem ferðþjónustuaðilar eru að gera í umhverfismálum. Í ár bárust 7 tilnefningar og fram kom í máli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, þegar hann afhenti verðlaunin, að sjaldan eða aldrei hefði valið verið jafn erfitt.

Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a. að ?Samfélagið á Sólheimum og öll starfsemi innan þess er í fararbroddi og til fyrirmyndar fyrir fyrirtæki og samfélög sem vilja bæta þjónustu við þann sístækkandi hóp fólks sem lætur sig umhverfismál varða.?

Gistiheimilið Brekkukot
Brekkukot er sjálfstætt fyrirtæki, stofnað 1997. Það býður gistingu í tveimur húsum, Brekkukoti og Veghúsum, auk þess sér það um rekstur og umsjón mötuneytis Sólheima, rekstur kaffihússins Grænu könnunnar, veitingarekstur, fundi, námskeið og ráðstefnuþjónustu í Sesseljuhúsi.

Brekkukot hefur markað sér stefnu í anda grænnar ferðaþjónustu og er fyrsta gistihúsið á Íslandi sem fékk opinbera viðurkenningu þar um. Sólheimar hafa í áratugi verið í fararbroddi í lífrænni ræktun og umhverfismálum og eru síðan 1997 meðlimur í samtökunum Global Eco-village Network, en það eru samtök vistvænna samfélaga. Lögð er áhersla á sjálfbærar byggingar, eigin orkuöflun, lífræna ræktun, vinnslu afurða úr náttúrulegum efnum og endurvinnslu.

Starf samfélagsins á Sólheimum tekur mið af kenningum Rudolfs Steiners. Ásamt starfi og hugsjónum Sesselju H. Sigmundsdóttir. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og er á meðal þeirra fyrstu á Íslandi sem létu sig umhverfismál varða. Markmið Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, Eco-village, byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekstur fyrirtækja að Sólheimum skal taka mið af efnahagslegum og félagslegum áhrifum á samfélagið og vera í sátt við náttúruna. Sólheimar eru fyrsti staðurinn á Íslandi sem hlýtur erlenda viðurkenningu sem sjálfbært byggðahverfi.

Er í fararbroddi
?Í auknu mæli gera neytendur kröfu um gæði og hreinleika vöru og þjónustu, að starfsemin sé öll í sátt við umhverfið. Samfélagið á Sólheimum og öll starfsemi innan þess er í fararbroddi og til fyrirmyndar fyrir fyrirtæki og samfélög sem vilja bæta þjónustu við þann sístækkandi hóp fólks sem lætur sig umhverfismál varð,? sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra meðal annars í ávarpi sínu.

Verðlaunagripurinn
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við - til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti pýramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem mest.


Sturla Böðvarsson samgönguráðhera, sem afhenti verðlaunin, Aðalheiður Ásta Jakobsdóttir frá Gistiheimilinu Brekkukoti og Ísólfur Gylfi Pálmason, starfandi formaður Ferðamálaráðs.