Fara í efni

Gestastofan Þorvaldseyri hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2014

Verðlaunahafar með ráðherra og formanni SAF.
Verðlaunahafar með ráðherra og formanni SAF.

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun samtakanna fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Að þessu sinni komu þau í hlut Gestastofunnar Þorvaldseyri.

Náttúra landsins hefur löngum verið helsta aðdráttarafl gesta hingað til lands, en á sama tíma er hún óbilgjarn bandamaður. Gegnum tíðina hefur hún gefið og tekið. Eyjafjallajökull, Grímsvötn og Bárðarbunga hafa síðan vorið 2010 minnt okkur á hvað gerir land elds og ísa einstakt en jafnframt erfitt í sambúð. En rétt eins og hafið gaf og tók, hafa þessi eldfjöll gefið og tekið á máta sem fæstum ef nokkrum Íslendingum fyrri tíðar hefði getað órað fyrir.

Nýsköpunarverðlaunum SAF er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Að horfa til náttúrunnar sem bandamanns, þó óbilgjarn kunni að vera, er ætti að geta orðið frumkvöðlum hráefni og hvatning til nýsköpunar. Þetta árið bárust 34 tilnefningar í samkeppni um nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar, en aldrei hafa fleiri tilnefningar borist.
Fyrirtækin sem tilnefnd voru byggðu mörg á gömlum merg, en önnur eru ný af nálinni en þó komin vel á legg. Sérstaklega voru þrjú þeirra fyrirtækja sem tilnefnd voru sem komu sterklega til greina og átti dómnefnd, sem skipuð var Grím Sæmundsen, formanni SAF, Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange, framkvæmdastjóra Pink Iceland og stjórnarmanni í SAF, Pétri Óskarssyni, framkvæmdastjóra Viator og Edward Hujbens, forstöðumanni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, í vanda þegar ákveða skyldi hver tilnefningin stóð fremst meðal jafningja.

Gestastofan á Þorvaldseyri er það fyrirtæki sem hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjóustunnar árið 2014.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Gestastofan á Þorvaldseyri er nýlegt verkefni en hefur náð gríðarlegum vinsældum á skömmum tíma og eflt framboð afþreyingar og tilefni til dvalar á suðurströnd landsins. Gestastofan tekur á móti gestum við þjóðveg landsins á einum þekktasta útsýnistað landsins upp á Eyjafjallajökul.

Gestastofan á Þorvaldseyri var reist á undraskömmum tíma í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli vorið 2010. Meðan margir sáu fyrir sér landauðn og að bændur þyrftu að bregða búi sáu staðarhaldarar á Þorvaldseyri möguleika í að deila ægiafli náttúru með þeim gestum sem áttu leið hjá um Suðurströnd. Að sjá möguleika og tækifæri í því sem er í nærumhverfi er kjarni nýsköpunar í ferðaþjónustu. Að taka þætti náttúrunnar og miðla þeim í máli og myndum af fagmennsku og metnaði skapar góða ferðavöru sem færir okkur heim sanninn af því að náttúran er ekki aðeins bandamaður heldur forsenda ábúðar okkar á þessu landi.

Ferðaþjónustan er í dag ein þeirra stoða sem gera okkur kleift að byggja landið og býr yfir miklum möguleikum í hinum dreifðari byggðum. Þessa möguleika raungerðu staðarhaldarar á Þorvaldseyri, hjónin Ólafur Eggertsson og Guðný A. Valberg ásamt framkvæmdastjóra Gestastofunnar. Þuríði Völu Ólafsdóttur. Eru þau sérstaklega vel að nýsköpunarverðlaunum SAF 2014 komin.“

Mynd: Sjöfn Ólafsfóttir.