Gert ráð fyrir 10% aukningu á Keflavíkurflugvelli

Samkvæmt frétt frá Isavia benda áætlanir flugrekenda á komandi sumri til þess að áfram verði veruleg aukning á umsvifum á Keflavíkurflugvelli.

16 flugfélög í sumar en 17 í fyrra

Gert er ráð fyrir um 10% auknum umsvifum miðað við fyrra. Alls munu 16 flugfélög halda uppi ferðum til landsins í sumar en samkvæmt vef Isavia voru þau 17 í fyrrasumar. Nýtt flugfélag á listanum er Thomas Cook Airlines en Travel Service og Holidays - Czech Airlines (Iceland Express) eru dottin út.

21,6% fjölgun í janúar

Nýja árið fer vel af stað en farþegafjöldi í janúar jókst um 21,6% miðað við árið í fyrra, enda sex flugfélög með starfsemi í vetraráætlun í ár en þrjú í fyrra.

15.000 farþegar á dag

Á komandi sumri er ráðgert að afgreiða 32 farþegaflug (komur og brottfarir) um háannatíma að morgni og síðdegis flesta daga vikunnar en allmargar flugvélar eru jafnframt afgreiddar um hádegisbil og miðnætti. Þá er búist við að a.m.k. 15.500 farþegar fari um Flugstöð Leifs Eiríkssonar daglega þegar mest lætur í júní, júlí og ágúst.

Skipulagsbreytingar og endurætur

Ráðist verður í nokkrar skipulagsbreytingar og endurbætur á flugstöðinni til þess að anna þessari miklu umferð og auka þægindi flugfarþega. Í norðurbyggingu verður tekið í notkun nýtt brottfararhlið fyrir farþega sem fluttir verða með rútum til og frá flugvélum og umtalsverðar breytingar verða einnig gerðar í suðurbyggingu, m.a. á svæðum sem áður voru ekki hluti af almennu farþegarúmi.

Sjálfsinnritunarstöðvum verður fjölgað enn til muna, en þær hafa sannað gildi sitt og flýta afgreiðslu við innritun, og tekin verður upp sjálfvirk farþegaafgreiðsla við tvö brottfararhlið til hægðarauka og til þess að draga úr biðraðamyndun. Þá er einnig unnið að uppsetningu á þráðlausu netkerfi sem nær til allra farþegasvæða í flugstöðinni og verður notkun þess gjaldfrí.

Listi yfir flugfélög

Eftirfarandi flugfélög munu annast áætlunar- og leiguflug á Keflavíkurflugvelli í sumar:

Air Berlin
Air Greenland
Austrian Airlines
Avion Express (WOW Air)
Delta Air Lines
Deutsche Lufthansa
easyJet
Edelweiss Air
Germanwings
Icelandair
Niki Luftfahrt
Norwegian Air Shuttle
Primera Air
Scandinavian Airlines System
Thomas Cook Airlines
Transavia.com

 


Athugasemdir