Fara í efni

Gerast meðlimir ?1% For the Planet?

Fuglaskoðun
Fuglaskoðun

Ísfirska ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures og Melrakkasetrið í Súðavík sem er fræðasetur um íslensku tófuna, hafa fyrst fyrirtækja á Íslandi gerst meðlimir í umhverfisverndarsamtökunum ?1% For the Planet?. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum tveimur.

Það var árið 2001 sem bandarísku félagarnir Yvon Chouinard, stofnandi og eigandi útivistavöruframleiðandans Patagonia og Craig Matthews eigandi fluguveiðiverslunarinnar Blue Ribbon Flies stofnuðu samtök sem þeir kölluð ?1% fyrir jörðina? (www.onepercentfortheplanet.org). Þetta er samstarfsvettvangur fyrirtækja sem lofa að ánafna minnst einu prósenti af ársveltu til raunverulegra umhverfisverkefna. Bæði þessi fyrirtæki höfðu stutt grasrótarsamtök sem börðust fyrir umhverfisvernd og þeir deildu þeirri skoðun að heilbrigð náttúra væri nauðsynleg fyrir framtíð mannkyns og framtíð fyrirtækja þeirra. Síðan félagsskapurinn var stofnaður hafa um 42 milljónir bandaríkjadala runnið frá þeim til umhverfismála og meðlimir eru yfir þrjú þúsund fyrirtæki og samtök.

Fyrirtækið Borea Adventures hóf rekstur árið 2006 og býður upp á fjölbreytt úrval ævintýraferða um norðanverða Vestfirði, austurströnd Grænlands og Jan Mayen á 60 feta seglskútu í eigu fyrirtækisins. Eins eru í boði styttri sem lengri kajak- og gönguferðir um Hornstrandir og Jökulfirði. Fyrirtækið starfar allan ársins hring en aðal tímabilið hefst í lok mars með sex daga fjallaskíðaferðum í Jökulfirði. Skíðaferðirnar eru í boði út maí síðan taka við náttúruskoðunarferðir á Hornstrandir, kajakferðir, leiðangrar til Jan Mayen og í ágúst er stefnan sett á austurströnd Grænlands. Borea Adventures hefur skýra umhverfisstefna og átta eigendur sig á því að helsta söluvara íslenskrar ferðaþjónustu er náttúran og því ber að hlúa að henni eins og kostur er. Sem betur fer eru sífellt fleiri fyrirtæki að átta sig á því að þau hafa skyldum að gegna gagnvart umhverfinu.

Melrakkasetrið er fræðasetur, stofnað árið 2007 og er helgað íslenska refnum sem er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi. Markmið setursins eru að stuðla að og taka þátt í rannsóknum á líffræði tegundarinnar, þróun sjálfbærrar náttúrulífsferðamennsku og safna saman á einn stað allri þekkingu, efni og hlutum sem tengjast melrakkanum í fortíð og nútíð. Einnig verkefni sem lúta að verndun vistkerfa og villtra dýrastofna. Í undirbúningi er sýning fyrir ferðamenn þar sem mun verða á boðstólnum fræðandi efni í máli og myndum um refi í náttúrunni, hérlendis sem erlendis, refarækt og refaveiðar. Sýningin verður opnuð í júní 2010 í gamla Eyrardalsbænum í Súðavík sem nú hefur verið endurbyggður í upprunalegri mynd.

Refaskoðunar- og rannsóknarferð
Samstarf þessara tveggja aðila á vonandi eftir að aukast í framtíðinni en dagana 19.-24. júlí verður í fyrsta skipti boðið upp á sérstaka refaskoðunar- og rannsóknarferð um Jökulfirði og Hornstrandir þar sem leiðsögumaður verður Ester Rut Unnsteinsdóttir, refasérfræðingur á Melrakkasetrinu. Íslenski refurinn er vannýtt auðlind í íslenskri ferðaþjónustu og hefur mikið aðdráttarafl, sérstaklega hjá erlendum náttúruunnendum þar sem mjög erfitt er að nálgast heimskautarefinn í löndunum í kringum okkur.
Nánari upplýsingar: www.BoreaAdventures.com :: www.melrakkasetur.is