Fara í efni

GEBRIS fer vel af stað

GEBRIS heimsókn
GEBRIS heimsókn

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga er aðili að svonefndu GEBRIS-verkefni en það stendur fyrir ?Getting the Best out of the regional innovation system?. Verkefnið hlaut styrk frá Norræna nýsköpunarsjóðnum í vor en aðrir þátttakendur koma frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Á dögunum voru fyrstu fundir samstarfsaðilann haldnir hérlendis.

Snýr að ferðaþjónustu
?Meginmarkmið GEBRIS verkefnisins er að bæta nýsköpunarumhverfið og nýta það betur til þess að mæta þörfum viðskipta- og atvinnulífs á hverju svæði. Verkefnið byggir að verulegu leyti á sérstökum viðfangsefnum á hverju svæði, eða því sem menn kalla ?case?. Viðfangsefni okkar hefur nokkra sérstöðu þar sem við erum að fást við ferðaþjónustu á meðan samstarfsaðilarnir eru flestir að fást við tækniumhverfi. Verkefnið stefnir hins vegar að sömu markmiðum og fellur vel inn í þann ramma sem GEBRIS verkefninu er settur.Það er von okkar að með þátttökunni skapist aðgangur að bæði þekkingu og fjármagni sem nýta má til nýsköpunar í ferðaþjónustu á svæðinu Melrakkaslétta-Langanes, segir Gunnar Jóhannesson, verkefnastjór hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga

Byggja ímynd í kringum norðrið og heimskautsbaug
Megináhersla Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í GEBRIS er þróun og kynning á áhugaverðum pökkum í þjónustu og afþreyingu á svæðinu Melrakkaslétta - Langanes/Bakkafjörður. Að byggja ímynd í kringum norðrið og heimskautsbaug, náttúru og menningu. ?Megintilgangurinn er að efla ferðaþjónustu og um leið mannlíf á svæðinu. Á strandlengju svæðisins, sem er aðeins 3km frá heimskautsbaug þar sem hún liggur nyrst, eru 4 þorp með íbúafjölda frá um 100-400. Svæðið hefur átt við fólksfækkun að stríða undanfarin ár, en það er sterkur vilji til nýsköpunar meðal heimamanna á hverjum stað,? segir Gunnar.

Þriggja ára verkefni
GEBRIS hófst formlega 1. september síðastliðinn en undirbúningur hafði þá staðið frá því síðasta vetur. Verkefnistímabili lýkur 31. desember 2009 en Gunnar segist þó gert ráð fyrir að hluti Þingeyinga standi í full 3 ár, þ.e. til haustsins 2010.
Sem fyrr segir voru fyrstu fundir samstarfsaðila í GEBRIS haldnir hérlendis á dögunum og segir Gunnar að vel hafi tekist til. ?Hingað til lands komu fjórir fulltrúar frá Finnlandi, tveir frá Svíþjóð og einn frá Noregi. Fengu þeir af eigin raun að kynnast svæðinu sem verkefni okkar tekur til. Dagskráin var nokkuð stíf en við náðum að ég held vel að stilla saman strengi þannig að ég er bjartsýnn á framhaldið,? segir Gunnar.

Á myndinni eru þátttakendur GEBRIS verkefnisins að skoða Langanes.
Af heimasíðu Langanesbyggðar