Fara í efni

Upplýsingar vegna rekstrarstöðvunar Gaman ferða

Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætt starfsemi. Hér er að finna mikilvægar upplýsingar til viðskipavina ferðaskrifstofunnar sem keypt hafa pakkaferðir eða samtengda ferðatilhögun. Upplýsingar verða uppfærðar jafn óðum eftir því sem mál skýrast. Við hvetjum því fólk til að fylgjast með hér á vefnum.


Nýjustu upplýsingar:

14. október 2019:

Nú eiga allir að vera búnir að fá greiddar kröfur sínar vegna Gamanferða. Hafi fólk ekki fengið greiðslu er ástæðan sú að uppgefið reikningsnúmer passar ekki. Verið er að hafa samband við viðkomandi en best er að senda réttar upplýsingar (nafn, kennitölu og reikningsnúmer) á netfangið mail@ferdamalastofa.is

9. október 2019:

Nú ættu allir sem sendu inn kröfu í kröfu í tryggingafé eftir rekstrarstöðvun Gamanferða að hafa fengið tilkynningu um niðurstöðuna. Byrjað verður að greiða samþykktar kröfur á næstu dögum. Tryggingafé ferðaskrifstofunnar dugði til að greiða allar samþykktar kröfur að fullu.  Alls bárust Ferðamálastofu 1.044 kröfur en rekstrarstöðvunin hafði hins vegar áhrif á ferðaáætlanir yfir 3.000 manns. Vinna Ferðamálastofu í kjölfarið miðaði að því að gera fólki kleift að nýta eins og frekast var kostur þá þjónustu sem það hafði þegar bókað og greitt fyrir eða greitt inn á. Þannig var fjölmörgum tilfellum hægt að nýta hluta pakkaferðar, t.d. tónleikamiða, hótelgistinu eða flug.

Markmiðið var að nýta sem best tryggingafé ferðaskrifstofunnar með það fyrir augum að fólk fengi til baka það sem greitt hafði verið fyrir ferðir eða hluta ferð sem ekki var hægt að fara. Þetta tókst því árangurinn af starfi Ferðamálastofu varð sá að trygging Gamanferða dugði fyrir samþykktum kröfum. Þannig kom ekki til þess að skerða þyrfti greiðslur til þeirra sem áttu réttmæta kröfu. Heildarfjárhæð krafna voru tæpar 203 milljónir. Af 1.044 kröfum voru 980 samþykktar, þar af 36 að hluta. Heildarfjárhæð samþykktra krafna voru tæpar 190 milljónir. Í 44 tilfellum voru kröfur dregnar til baka og 20 var hafnað.

Hafi kröfuhöfum ekki borist tilkynning inn í þjónustugátt Ferðamálastofu eða tölvupósti er viðkomandi beðinn að hafa samband við Ferðamálastofu  á netfangið mail@ferdamalastofa.is .

1. október 2019:
Nú er að hefjast vinna við að senda tilkynningar til þeirra kröfuhafa sem fullnægja skilyrðum endurgreiðslu. Tilkynningar verða aðeins sendar rafrænt, þ.e. í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu og afrit í tölvupósti til viðkomandi, sé tölvupóstfang til staðar. Senda þarf sérstaklega á hvern og einn og því mun taka nokkurn tíma að koma þeim til allra þeirra rúmlega 1.000 kröfuhafa sem um ræðir. Enn á ný vill Ferðamálastofa þakka fyrir biðlundina sem fólk hefur sýnt í þessu umfangsmikla máli, sem nú sér loks fyrir endann á. Jafnframt er fólk beðið að halda símtölum í lágmarki þar sem tími sem fer í þau seinkar ferlinu enn frekar.

20. september 2019:
Vinna við yfirferð krafna í tryggingarfé Gaman ehf. gengur vel og er á lokametrunum. Búið er að afgreiða þær kröfur sem ekki fullnægja skilyrðum endurgreiðslu og hefur viðkomandi kröfuhöfum verið send tilkynning þess efnis rafrænt, í þjónustugátt Ferðamálastofu og afrit í tölvupósti, sé hann til staðar.

Eins og fram hefur komið bárust Ferðamálastofu 1.036 kröfur og eins og gefur að skilja getur tekið einhvern tíma að koma ákvörðunum til allra. Ferðamálastofa mun ekki senda ákvarðanir sínar í almennum pósti heldur verða þær aðeins sendar rafrænt, þ.e. í gegnum þjónustugáttina og afrit í tölvupósti. Að öllu forfallalausu geta aðilar búist við að það gerist á fyrstu dögum októbermánaðar.

19. ágúst 2019:
Vinna við yfirferð þeirra rúmlega 1.000 krafna sem bárust í kjölfar rekstrarstöðvunar Gaman ehf. (Gamanferða) sækist vel. Vonir standa til að um eða eftir miðjan september verði yfirferð lokið og fá þá allir senda tilkynningu með niðurstöðunni. Í kjölfarið tekur við fjögurra vikna kærufrestur áður en hægt verður að greiða út kröfur.

Að sögn Helenu Þ. Karlsdóttur, forstöðumanns stjórnsýslu- og umhverfissviðs Ferðamálastofu, hefur ekkert óvænt komið upp í vinnunni en nokkuð hefur tafið fyrir að í gögn eru ekki alltaf fullnægjandi og tímafrekt að kalla eftir viðbótargögnum. Þá er eitthvað um að sami aðili hafi sent inn fleiri en eina kröfu vegna sömu ferðar, sem einnig tefur úrvinnsluna. Hún segir starfsfólk Ferðamálastofu þakklátt fyrir biðlundina sem fólk hefur sýnt og skilning á þeim tíma sem ferli sem þetta tekur.


 

8. júlí:
Enn eru nokkrar vikur í að vænta megi niðurstöðu í innsendar kröfur vegna rekstrarstöðvunar Gaman ehf. (Gamanferða). Reynt er að hraða ferlinu eins og frekast er kostur en á meðan er fólk beðið að sýna biðlund.

Vinna Ferðamálastofu í kjölfar rekstrarstöðvunar Gamanferða miðaði að því að gera fólki kleift að nýta eins og frekast var kostur þá þjónustu sem það hafði þegar bókað og greitt fyrir eða greitt inn á. Þannig var fjölmörgum tilfellum hægt að nýta hluta pakkaferðar, t.d. tónleikamiða, hótelgistinu eða flug.
Eftir standa ferðir eða hluti af ferðum sem fólk hafði greitt fyrir en ekki var hægt að fara og í þeim tilfellum á fólk rétt á endurgreiðslu úr tryggingarfé ferðaskrifstofunnar.

Líkt og fram hefur komið bárust alls 1.038 kröfur og skoða þarf hvert og eitt mál sérstaklega. Allir sem sent hafa inn kröfur munu frá formlega tilkynningu um niðurstöðu málsins. Sem fyrr segir verður reynt að hraða ferlinu eins og hægt er en þó má í fyrsta lagi búast við að mál fari að skýrast með haustinu.


 

21. júní kl. 8:30:
Frestur til að gera kröfu í tryggingarfé Gaman ehf. (Gamanferða) rann út á miðnætti, fimmtudaginn 20. júní 2019. Kröfur sem berast eftir þann tíma teljast of seint fram komnar og verða ekki teknar til greina. Alls bárust 1.038 kröfur.

Nú tekur við yfirferð og vinnsla krafna en í ljósi fjöldans má búast við að nokkurn tíma taki að fara yfir og taka afstöðu til þeirra. Reynt verður að hraða ferlinu eins og hægt er en þó má í fyrsta lagi búast við mál fari að skýrast með haustinu.


 

Hafi kröfuhafi sent inn fleiri en eina kröfu, vegna sömu ferðar, verður litið svo á að seinni krafan dragi til baka fyrri kröfur.

24. maí kl. 11:25:
Til upplýsinga vegna kröfulýsinga í tryggingarfé Gaman ehf. Frestur vegna kröfulýsinga í tryggingafé Gaman ehf. rennur út 20. júní nk. Þegar eru komnar hátt í 900 kröfur. Starfsfólk Ferðamálastofu mun leggja áherslu á að vinna eins hratt úr kröfum og mögulegt er, þó er ljóst að það verkefni mun taka nokkrar vikur. Ekki er hægt að segja til um hvenær niðurstöður liggja fyrir. Við biðjum fólk að hafa biðlund, allir sem sent hafa inn kröfur munu frá formlega tilkynningu um niðurstöðu málsins.

10. maí kl. 13:30:

Nú eiga allir sem áttu bókaðar pakkaferðir með Gaman ferðum að hafa fengið símtal eða tölvupóst frá Ferðamálastofu með upplýsingum varðandi ferðirnar.

Vanti einhvern nánari upplýsingar má senda tölvupóst á netfangið mail@ferdamalastofa.is

18. apríl kl. 19:20:
Nú eiga allir sem eiga ferðir sem þarf að aflýsa í septemer-desember er vera búnir að fá upplýsingar þar um, og þar með allir sem áttu ferðir sem þarf að aflýsa á árinu 2019. Enn á eftir að hafa samband við nokkurn hóp fólks þar sem mökuleiki er að nýta sér hluta af ferð, t.d. flug eða miða á viðburð.

Næstu upplýsingar koma væntanlega inn eftir páska. Fyrirspurninir fyrir nánari upplýsingar skal senda á netfangið: mail@ferdamalastofa.is.

17. apríl kl. 20:50:
Nú ættu allir sem eiga ferðir í júní, júlí og ágúst sem þurft hefur að aflýsa, að vera búnir að fá tölvupóst með upplýsingum þar um. 

17. apríl kl. 16:20:

Því miður þarf að aflýsa áður staðfestri ferð til Varsjár með brottför 25. apríl en Ferðamálastofa hafði fengið staðfestar upplýsingar um að leiguflug og hótel ferðarinnar væri að fullu greitt. Leiguflugfélagið hefur hins vegar rift samningnum og ekki reyndist mögulegt að útvega aðra leiguvél með svo stuttum fyrirvara. Þeim sem greitt hafa fyrir ferðina er bent á að setja fram kröfu um endurgreiðslu, sjá undir "Hvað þarf ég að gera til að fá endurgreiðslu?" hér að neðan. 

17. apríl kl. 15:50:

  • Ferðamálastofa vinnur hörðum höndum að því að hafa samband við alla sem áttu bókaða ferð með Gaman ferðum. Fjöldinn er slíkur það mun taka einhvern tíma.  Við biðjum því fólk um að sýna þolinmæði en innsendum fyrirspurnum verður svarað um leið og við höfum tök á.

  • Ferðamálastofa mun í dag og morgun klára að senda tilkynningar til allra aðila sem hafa keypt pakkaferð hjá Gaman ferðum og  liggur fyrir að verði aflýst að fullu.

  • Þeir sem heyra ekki í okkur fyrir páska eiga pakkaferðir með Gaman ferðum sem þarfnast frekari skoðunar. Í þeim tilvikum er möguleiki að ferð verði farin eða hægt verði að nýta sér hluta þjónustunnar (flug/hótel) sé þess óskað. Tíma tekur að fara yfir þær ferðir en við munum hafa samband við alla.

  • Frestur til að lýsa kröfum er 20. júní næstkomandi. Við setjum í forgang að svara þeim sem hafa fyrirspurnir um ferðir en fyrirspurnum um kröfur verður svarað þegar við höfum náð að upplýsa alla um pakkaferðina sem þeir áttu með Gaman ferðum.

16. apríl kl. 16:20:

Ferðir sem liggur fyrir að er aflýst:

  • Einstök sérferð til Parísar, 9.-13. maí
  • Heilsa og hreyfing í Cambrils 17.-24. maí
  • Yoga og slökun í Tossa de Mar 20.-27. maí
  • Gönguferð Tossa de Mar 23.-31. maí
  • Gönguferð í Austurrísku Ölpunum 2.-10. júní
  • Ferð á Rock Werchter, 26. júní-1. júlí

Hópar / Fyrirtæki þar sem fyrir liggur að ferð er aflýst:

  • Gísli ehf. 11.-15. september
  • Matís 27.-30. september
  • Eignamiðlun 18.-20. október
  • Lyfja, ferð til Varsjár

Þeir sem greitt hafa inn á þessar ferðir geri kröfu í tryggingafé ferðaskrifstofunnar. Kröfur eiga að sendast rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu. Skrá þarf sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum.

16. apríl kl. 09:00:

  • Búið er að hafa samband við alla sem áttu bókaðar ferðir í apríl.
  • Nú er megináherlan á að fá niðurstöður í ferðir sem fyrirhugaðar voru í maí-ágúst.
  • Einnig er unnið í að fá niðurstöður í aðrar ferðir. Við biðjum fólk að sýna biðlund og halda símtölum í lágmarki en haft verður samband við skráða tengiliði um leið og niðurstöður hverrar ferðar liggja fyrir.

 

Réttarstaða ferðamanna

Sala pakkaferða er leyfis- og tryggingarskyld vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar. Tryggingunni er ætlað að endurgreiða greiðslur sem ferðamaður hefur greitt vegna slíkra ferða og þær ekki framkvæmdar í samræmi við samning komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots seljanda.

Gaman ferðir hafa lagt fram lögbundna tryggingu til Ferðamálastofu.

Hvað er pakkaferð

Pakkaferð er ferð sem samsett er af a.m.k. tveimur mismunandi tegundum ferðatengdrar þjónustu vegna sömu ferðar: Ferðatengd þjónusta felst í:

  • Flutningi farþega, t.d. flugi
  • Gistingu, sem hvorki er í eðlilegum tengslum við flutning farþega né til búsetu,
  • Leigu bifreiða og bifhjóla sem krefjast ökuréttinda í A-flokki,
  • Annarri þjónustu við ferðamenn, sem ekki er í eðlilegum tengslum við áðurnefnda þjónustuþætti hér að ofan.

Önnur ferðatengd þjónusta getur verið t.d. aðgöngumiði að tónleikum fótboltaleik, golf, skíði o.s.frv.

Hvað fæst bætt

Ferð sem ekki verður farin:
Hafi ferðamaður greitt fyrir pakkaferð sem ekki verður farin á hann rétt á endurgreiðslu úr tryggingarfé ferðaskrifstofunnar. Ekki skiptir máli hvort ferð er að fullu greidd eða að hluta. Sjá hér að neðan "Hvað þarf ég að gera til að fá endurgreiðslu".

Ferð sem er farin:
Sumar af fyrirhuguðum ferðum Gamanferða verða farnar. Taka mun nokkra daga að fá niðurstöðu í hvaða ferðir er um að ræða en lögð er áhersla á að fá fyrst upplýsingar um þær ferðir sem eru næst í tíma. Ef ferð er farin er ekki um endurgreiðslu að ræða. Ef ferð er farin að hluta fæst hluti endurgreiddur. Nánar síðar.

Hvað þarf ég að gera til að fá endurgreiðslu

  • Þeir sem telja sig eiga kröfu vegna pakkaferða eða samtengdrar ferðatilhögunar geta lýst kröfum sínum í tryggingu seljandans.
  • Frestur til að lýsa kröfum er til 20. júní og verða kröfur að hafa verið lagðar fram innan þess tíma.
  • Kröfur eiga að sendast rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu. Skrá þarf sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum.
  • Ef greiðslur fyrir hópferð (t.d. vinnustað) fóru fram hjá einum aðila fyrir allan hópinn þá nægir að sá aðili setji fram kröfu fyrir allan hópinn. Ef hver og einn í hópnum greiddi sinn hluta þarf hver og einn að setja fram kröfuna. 
  • Fyrst þegar kröfulýsingarfresturinn er liðinn er hægt að taka afstöðu til allra krafna og hefja endurgreiðslur.
  • Með kröfulýsingum skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna s.s. farseðlar og kvittanir. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun kröfu.

Viðbragðsáætlun Ferðamálastofu

Ferðamálastofa hefur virkjað viðbragðsáætlun vegna gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar og stöðu viðskiptavina þeirra. Í áætluninni er farið yfir tryggingaskyldu seljanda og hvað í henni flest, hvað þeir sem keypt hafa pakkaferð af félagi sem fer í þrot þurfa að gera til að fá endurgreitt og almennt um meðferð mála þegar félag sem selt hefur pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun fer í þrot. Þannig mun Ferðamálastofa afla upplýsinga um ferð, stöðu hennar og farþega, leitar samvinnu við flugfélög og tekur ákvörðun um heimflutning farþega ef við á.

Nánari upplýsingar

Fyrirspurninir fyrir nánari upplýsingar skal senda á netfangið: mail@ferdamalastofa.is.

Þessi síða verður uppfærð jafn óðum og mál skýrast og kappkostað veita svör við þeim spurningum sem berast.