Fara í efni

Gæða- og umhverfiskerfið heitir VAKI

Vaki 2
Vaki 2

Í dag svipti Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðmála, hulunni af nafni á nýju gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar sem hlotið hefur nafnið VAKI. Efnt var til samkeppni um nafnið - sem skyldi vera á íslensku og lýsandi fyrir verkefnið en jafnframt þjált í framburði á alþjóðavettvangi.

130 tillögur bárust
Um 130 tillögur bárust og var það niðurstaða dómnefndar að nýtt gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu skuli hljóta nafnið VAKI en kerfinu sé einmitt ætlað að vaka yfir frammistöðu þeirra sem starfa í greininni og vekja og viðhalda áhuga á gæðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þar sem fleiri en ein tillaga barst með nafninu VAKI var dregið um vinningshafa. Upp kom nafn Gunnars Svavarssonar og hlýtur hann í verðlaun 100 þúsund krónur.

Kennimerki VAKA
VAKI hefur jafnframt eignast sitt kennimerki sem er vindrella, hönnuð af Þórhalli Kristjánssyni hjá auglýsingastofunni Effekt á Akureyri. Auk almennrar skírskotunar og jákvæðra hughrifa má að mati dómnefndar sjá í merkinu tilvísun til umhverfisins, í þjóðarblóm Íslendinga holtasóleyna, hvað varðar bæði lögun og lit. Þá myndi útlínur merkisins stjörnu og vísi það í viðurkenninguna sem felst í gæðakerfinu. Alls bárust 14 tillögur að merki í lokaðri samkeppni.

VAKA er ætlað að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustuaðila. Kerfið skiptist annars vegar í stjörnuflokkun fyrir gististaði og hins vegar aðra þjónustu sem tengist ferðamönnum og verður það tekið í notkun á næstu misserum. Fyrirmyndin að kerfinu er sótt til Nýja Sjálands en þróun og aðlögun þess hefur staðið yfir um nokkurt skeið hjá Ferðmálastofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtökum Íslands.

Á fundinum kynnti Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður þróunarsviðs Ferðamaálstofu, nýja kerfið. Kynning á Vaka (Powerpoint)