Fyrstu ferðamennirnir á vegum Fjord Fishing

Fyrstu ferðamennirnir á vegum Fjord Fishing
Tálknafjörður

Nýtt útgerðarmynstur leit dagsins ljós á Tálknafirði fyrr í vikunni. Það byggir á því að skipstjórarnir horfa á þýska ferðamenn veiða fyrir sig kvótann á sjóstöng og borga ferðamennirnir meira að segja fyrir það, eins og komist var að orði í frétt á Vísi.

Alls hafa um 900 Þjóðverjar boðað komu sína til Súðavíkur og Tálknafjarðar í sumar í þessum tilgangi á vegum Fjord Fishing en að fyrirtækinu standa sveitarfélögin Tálknafjörður, Vesturbyggð, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur, og fyrirtækin Angelreisen og Iceland Pro Travel. Ferðamennirnir róa til fiskjar á nokkrum hraðfiskibátum og veiða af kvótum þeirra, en eigendur bátanna njóta afrakstursins. Má hver veiðimaður taka tuttugu kíló af fiski með sér heim til Þýskalands. Unnið verður að því á næstu fimm árum að byggja upp þjónustueiningar í fleiri sveitarfélögum á svæðinu.

Myndin er tekin við höfnina á Tálknafirði og er fengin á vef sveitarfélagsins.


Athugasemdir