Fara í efni

Fyrsti hluti ferðaþjónustureikninga birtur


Hagstofan hefur birt fyrstu niðurstöður nýrra ferðaþjónustureikninga (e. Tourism Satellite Accounts, TSA) fyrir árin 2009-2013. Þessi tölfræði leggur mat á hlut ferðaþjónustu í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar.

Mikill vöxtur

Ferðaþjónustureikningarnir staðfesta eins og við var að búast mikinn vöxt í ferðaþjónustu hérlendis. Þannig hefur neysla erlendra ferðamanna aukist úr rúmlega 92 milljörðum króna árið 2009 í rúmlega 165 milljarða árið 2013, eða um 79% á nafnvirði.

Íslendingar mikilvægir

Neysla íslenskra ferðamanna innanlands hefur einnig aukist, en þó minna en þeirra erlendu. Þannig hefur neysla innlendra ferðamanna á sama tímabili aukist úr tæplega 60 milljörðum í tæplega 88 milljarða, eða um rúmlega 47% á nafnvirði.

Þótt hlutur erlendra ferðamanna hafi vaxið (úr 52% árið 2010 í 60% 2013), þá skipta innlendir ferðamenn íslenska ferðaþjónustu miklu máli. Neysla innlendra ferðamanna nær yfir neyslu Íslendinga innanlands, jafnt í ferðum þeirra innanlands sem og hluta af utanlandsferðum þeirra (s.s. flugmiða sem keyptir eru af íslenskum flugfélögum).

Fleiri niðurstöður í haust

Ferðaþjónustureikningar voru unnir í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð ferðamála með fjármögnun frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Fleiri töflur fyrir árin 2009-2013 verða birtar á haustmánuðum 2015.

Hagstofan bendir á að vegna breyttrar aðferðafræði eru þessar tölur ekki samanburðarhæfar við þær sem Hagstofa Íslands birti fram til ársins 2011.

Starfsmananfjöldi og velta í nokkrum greinum

Samhliða birtingu á ferðaþjónustureikningum birtir Hagstofa Íslands nýjar skammtímatölur yfir fjölda starfsmanna og veltu í nokkrum einkennandi atvinnugreinum í ferðaþjónustu. Tölur um fjölda starfsmanna verða uppfærðar mánaðarlega og veltutölur á tveggja mánaða fresti.

Nánar á vef Hagstofunnar