Fyrsta rafknúna hvalaskoðunarskipið

Rafknúna hvaðaskoðunarskipið Opal

Í gær fór rafknúið skip í fyrsta skipti í hvalaskoðunarferð hér við land. Um var að ræða seglskipið Opal sem er án efa tæknivæddasta skipið í flota Norðursiglingar á Húsavík. Á meðal boðsgesta í fyrstu ferð Opal um Skjálfanda var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Nýr skrúfubúnaður sem þróaður hefur verið sérstaklega fyrir Opal hefur þá sérstöðu að hægt er að hlaða rafgeyma skipsins undir seglum. Að jafnaði verða rafgeymarnir hlaðnir þegar skipið kemur til hafnar með umhverfisvænni orku af orkukerfi landsins. Í hvalaskoðunarferðum mun rafmótorinn knýja skrúfubúnaðinn en þegar skipið siglir fyrir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og nýta búnaðinn til að hlaða rafmagni inn á geyma skipsins. Þetta er í fyrsta skipti sem slík tækni er nýtt um borð í skipi og hefur hún vakið mikla athygli þar sem hún hefur verið kynnt erlendis. Í framhaldi af fyrstu hvalaskoðunarferð Opal um Skjálfanda er gert ráð fyrir að skipið fari í leiðangur til austurstrandar Grænlands.

Fjölþjóðlegt þróunarsamstarf

Nýtt rafkerfi, rafhlöður, drif og skrúfa hafa verið hönnuð í Opal í samstarfi Norðursiglingar við teymi norrænna samstarfsaðilla. Þannig hafa fyrirtækin Caterpillar Propulsion (Svíþjóð) og Wave Propulsion (Noregi) hannað skrúfubúnaðinn, en íslenska fyrirtækið Naust Marine hefur hannað raf- og stjórnkerfi í samstarfi við Clean eMarine (Danmörku) og Anel AS (Noregi). Aðrir aðilar að verkefninu eru Lakeside Excursion (Færeyjum), Bellona (Noregi), Íslensk Nýorka og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Lithium Storage (Swiss) sérframleiddi rafgeyma fyrir Opal. en eftirtaldir aðilar hafa styrkt hafa verkefnið; Nordisk Atlantssamarbejde (NORA), Innanríkisráðuneytið, Transnova, Nordic Innovation, Samgöngustofa, og Orkusjóður. Eftirleiðis mun Opal eingöngu ganga fyrir vistvænu rafmagni og gamla dieselvélin um borð verður eingöngu nýtt sem varaafl. Samtímis vélabreytingunni hefur skrokkur skipsins verið yfirfarin og styrktur auk þess sem seglbúnaði hefur verið breytt til að nýta vindorkuna betur. Erlendir fjölmiðlar hafa sýnt málinu áhuga og er gert ráð fyrir að nokkrir þeirra muni koma hingað til lands að fylgjast með þessum viðburði.

Nánar á vef Norðursiglingar


Athugasemdir