Fara í efni

Fyrsta brautskráningin úr Leiðsögunámi á háskólastigi

Lie''sögumenn háskólastigi
Lie''sögumenn háskólastigi

Alls voru 24 kandídatar brautskráðir af námsbrautinni Leiðsögunám á háskólastigi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Háskólabíó þann 12. febrúar síðastliðinn. Þetta var fyrsta brautskráningin af þessari námsbraut sem fór fyrst af stað haustið 2008.

Stór dagur fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra og ráðherra ferðamála hélt hátíðarræðu í tilefni dagsins. Katrín óskaði öllum útskriftarnemum og fjölskyldum þeirra til hamingju með árangurinn. Hún sagði jafnframt í ræðu sinni að sem ferðamálaráðherra væri hún mjög stolt. Þetta væri stór dagur fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi þar sem nú væri í fyrsta sinn verið að brautskrá leiðsögumenn á háskólastigi og framtíðin væri vissulega björt í ferðaþjónustunni.

Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur
Veitt voru verðlaun fyrir framúrskarandi árangur og þau hlaut Tryggvi Jakobsson.

Nýr hópur fer af stað haustið 2010
Leiðsögunám á háskólastigi er námsbraut fyrir þá sem vilja búa sig undir starf leiðsögumanns á Íslandi. Megináhersla er lögð á hagnýta þekkingu á sviði leiðsagnar með ferðamenn. Námið er 60 eininga nám (ECTS) á grunnstigi háskóla og er kennt á tveimur misserum bæði í staðnámi sem og í fjarnámi. Námið er viðurkennt sem aukagrein með ferðamálfræði svo og í hugvísindadeild Háskóla Íslands. Næsti hópur fer af stað haustið 2010 og er umsóknarfrestur til 1. júní. 


 
Myndatexti:
Neðsta röð frá vinstri: Siv Friðleifsdóttir, Ragna Ólafsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Úlfheiður Ingvarsdóttir, Íris Sigurðardóttir, Katharina Maria Christa Ruppel, Hrafnhildur Faulk, Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir
Miðröð frá vinstri: Höskuldur Jónsson, Alexía Björg Jóhannesdóttir, Íris Sveinsdóttir, Þorsteinn S McKinstry, Ása K Jóhannsdóttir, Auður Eir Guðmundsdóttir
Efsta röð frá vinstri: Tryggvi Sigurbjarnarson , Hermann Valsson, Finnur A P Fróðason, Tyrfingur Tyrfingsson,  Tryggvi Jakobsson, Gunnar Þór Gunnarsson, Þorgerður Jónsdóttir,

Á myndina vantar: Ester Bergsteinsdóttir, Kjartan Emil Sigurðsson, Jurgita Statkevicius