Fulltrúar Visit Norway í heimsókn til Íslands - Sækja lærdóm um ábyrga ferðamennsku og öryggi ferðamanna
Ferðamálastofa tók nýverið á móti þremur fulltrúum frá Visit Norway sem vinna í sérstökum starfshópi, sem ætlað er að efla ábyrga ferðamennsku („responsible travel in Norway“). Verkefnið er unnið að beiðni norsku ríkisstjórnarinnar í ljósi aukins fjölda slysa, hraðrar fjölgunar og takmarkaðrar vitundar ferðamanna um örugga og sjálfbæra ferðahegðun. Markmiðið er að þróa aðgerðir á sviði ábyrgrar markaðssetningar, ferðavenja og samvinnu – með áherslu á aukið öryggi, minna álag á náttúru og samfélög og varanlega verðmætasköpun í ferðaþjónustu.
Hvernig hefur verið tekist á við áskoranir
Noregur lítur til Íslands í þessum efnum og vildu fulltrúarnir sérstaklega kynna sér hvernig íslensk stjórnvöld, stofnanir og atvinnulíf hafa tekist á við sambærilegar áskoranir, einkum varðandi öryggi ferðamanna, umferðaröryggi, útivist og ferðamenningu.
Fundað með helstu aðilum á sviði öryggis og sjálfbærrar ferðaþjónustu
Ferðamálastofa skipulagði fyrir gestina fundi með helstu hagaðilum á sviði öryggis og sjálfbærrar ferðaþjónustu. Þeir áttu fundi með Ferðaklasanum, Íslandsstofu, Safetravel, Náttúruverndarstofnun, Vegagerðinni, Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) og Veðurstofunni, auk viðræðna við fulltrúa Ferðamálastofu.
Öflugt samstarf á Íslandi vakti áhuga
Gestirnir lýstu sérstakri ánægju með hversu öflugt samstarf ríkir á Íslandi á milli hagaðila og stofnana og hve reglulega og markvisst Ferðamálastofa á í samtali við þessa aðila um öryggis- og ábyrgðarmál. Þeir töldu skýrt að þessi samvinna hefði lykiláhrif á árangur Íslands í málefnum ábyrgrar ferðamennsku.
Stefnt að frekari tengslum
Visit Norway og Ferðamálastofa eru afar ánægð með samstarfið til þessa og stefnt er að áframhaldandi reglulegum fundum og upplýsingaskiptum milli stofnananna. Markmiðið er að styrkja enn frekar tengslin og vinna saman að lausnum sem stuðla að öruggri, ábyrgri og sjálfbærri ferðaþjónustu til framtíðar – bæði í Noregi og á Íslandi.
Nánari upplýsingar:
Dagbjartur Brynjarsson, sérfræðingur í öryggismálum
dagbjartur@ferdamalastofa.is