Fara í efni

Friðheimar fyrirmyndarfyrirtæki Ábyrgrar ferðaþjónustu

Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann í Friðheimum ásamt forseta Íslands,  Guðna Th. Jóhannes…
Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann í Friðheimum ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans.

Á degi Ábyrgrar ferðaþjónustu í dag veitti forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu. Verðlaunin að þessu sinni féllu í skaut Friðheima í Reykholti.

Í rökstuðningi dómnefndar sagði meðal annars:

“Friðheimar eru fjölskyldufyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað í gegnum árin með það markmið að ganga vel um og virða náttúruna. Umhverfismál eru eigendum hugleikin, þau hafa verið í hvatningaverkefninu Ábyrg ferðaþjónusta frá upphafi. Þá er fyrirtækið með bronsvottun Vakans og stefna þau ótrauð á gullið. 

Fyrirtækið leggur mikla áherslu á réttindi starfsfólk. Nýliðaþjálfun og fræðsla er til fyrirmyndar enda er starfsfólk hjarta fyrirtækisins eins og þau segja sjálf. Á ný liðnu ári var lögð áhersla á að halda öllu starfsfólki og byggja upp sterka innviði fyrir bjartari tíma. 

Á Friðheimum er lögð áhersla á stuðning við nærsamfélagið m.a. með því að versla í héraði auk þess sem að allir gestir eru upplýstir um ylrækt á Íslandi og þá merku sögu sem svæðið hefur að geyma.

Fyrirtækið leggur áherslu á nýsköpun og tileinkar sér umhverfisvænar lausnir, má þar nefna aðferðir til að minnka matarsóun og lágmarka kolefnisspor. Friðheimar eru lifandi dæmi um hvernig íslenskt hugvit þar sem landsins gæði geta orðið til þess að skapa einstaka upplifun í ferðaþjónustu. Upplifun sem tengir saman marga þætti og styður við þá hugsun að nýta landið á sjálfbæran hátt, fræða, skapa, upplifa og vinna saman að því að bæta umhverfi og samfélag.”

Verkefninu um Ábyrga ferðaþjónustu hefur verið haldið úti frá 10.janúar 2017 en hátt í 200 fyrirtæki um allt land taka virkan  þátt í verkefninu í gegnum fræðslufundi, vinnustofur og viðburði. Framkvæmdaaðilar eru Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar í samstarfi við FESTU, félag um samfélagsábyrgð.