Fara í efni

Fréttir af aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands

Hólaskóli vottunaraðili Green Globe 21
Hólaskóli vottunaraðili Green Globe 21

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands var að þessu sinni haldinn á Hótel Varmahlíð daganna 25. og 26. nóvember sl. Þema fundarins voru gæði í ferðaþjónustu, þróun þeirra og væntingar.

Þátttaka aðila frá hinum átta landshlutasamtökum var mjög góð frá öllum svæðum. Umgjörð fundarins var hin besta undir fundarstjórn Elíasar Bj. Gíslasonar, forstöðumanns upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs Íslands og allt framlag heimamanna, Skagfirðinga, var til mikillar fyrirmyndar.

Fundurinn hófst á setningu Péturs Rafnssonar, formanns FSÍ, en hann ræddi m.a. um stöðu greinarinnar, ferðamálaáætlun til 2015 og ný lög um skipulag ferðamála, sem taka gildi 1. janúar 2006. Hann fór einnig nokkrum orðum um samstarf fyrirtækja í ferðaþjónustu og samtaka þeirra í landshlutunum.

Tveir fyrirlesarar ræddu um gæði í ferðaþjónustu, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri í Háskólanum á Hólum, talaði um fagmennsku almennt og þýðingu hennar fyrir framtíð greinarinnar og Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfuglaheimilisins í Reykjavík talaði um vinnu þeirra með gæðakerfið ?High Quality? og innri gæðavinnu í fyrirtækjum. Þær stöllur svöruðu síðan fyrirspurnum fundarmanna.

Ný stjórn FSÍ
Almenn aðalfundarstörf fóru fram eftir kaffihlé samkvæmt lögum FSÍ og gengu vel fyrir sig.
Ný stjórn ferðamálasamtaka Íslands skipa eftirtaldir aðilar: Formaður var kosinn Pétur Rafnsson FSH og meðstjórnendur voru tilnefndir frá landshlutasamtökunum þau Marteinn Njálsson, FSVL, Sævar Pálsson, FSVF, Pétur Jónsson, FSNV, Ásbjörn Björgvinsson, FSNE, Stefán Stefánsson, FSA, Ingi Þór Jónsson, FSSL, Kristján Pálsson, FSS og Dóra Magnúsdóttir frá FSH.

Fulltrúar FSÍ í nýtt Ferðamálaráð Íslands sem tekur til starfa 1. janúar 2006 skv. nýjum lögum um skipulag ferðamála verða eftirtaldir: Aðalmenn: Pétur Rafnsson og Dóra Magnúsdóttir. Varamenn: Ásbjörn Björgvinsson og Jónas Hallgrímsson.

Kynning á ferðaþjónustu svæðisins
Að fundi loknum var fundarmönnum boðið að skoða handverk í Skagafirði. Undir kvöldmat bauð sveitarfélagið í móttöku að Löngumýri, þar sem bæjarstjórinn Ársæll Guðmundsson tók á móti gestum og karlakórinn Heimir söng af sinni alkunnu snilld við frábærar undirtektir. Að því loknu hófst kvöldverður í Hótel Varmahlíð undir veislustjórn Jakobs Frímanns Þorsteinssonar, forstöðumanns upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð. Skemmtiatrið voru harmónikkuleikur tveggja Skagfirðinga og að kvöldverði loknum var tekinn snúningur á dansgólfinu fram eftir kvöldi.

Á laugardag var farið í skemmtilega kynnisferð um Skagafjörð og ferðaþjónusta kynnt. Komið var við í Reiðhöllinni á Sauðárkróki, þar sem kynnt voru hestaferðafyrirtækin á svæðinu og boðið upp á hestasýningu. Skíðasvæðið í Tindastól var heimsótt og að lokum voru gestir boðnir í léttan hádegisverð á Hótel Tindastóli, þar sem almenn kynning var á ferðaþjónustu í Skagafirði.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundinum.


Pétur Rafnsson, formaður FSÍ í ræðustóli, Elías Bj. Gíslason fundarstjóri og Marín
Hrafnsdóttir fundarritari.


Ásbjörn Björgvinsson, Kristín Jóhannsdóttir, Ólafur Sveinn Jóhannesson, Kjartan
Lárusson og Davíð Samúelsson.


Ásborg Arnþórsdóttir og Hildur Jónsdóttir.


Aðalfundargestir kynna sér starfsemi upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra
í Varmahlíð.