Fara í efni

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða: 147 milljónir til framkvæmda í þjóðgörðum

Löngufjörur og Snæfellsjökull.
Löngufjörur og Snæfellsjökull.

Þriðja úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða var samþykkt af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fyrir skömmu. Um var að ræða úthlutun til þjóðgarða.

Framkvæmdasjóðurinn er sem kunnugt er fjármagnaður með 3/5 gistináttagjalds en 2/5 hlutar renna til Umhverfisráðuneytisins til verkefna í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Því hefur Framkvæmdasjóðurinn ekki veitt styrki til framkvæmda í þjóðgörðum í tveimur fyrstu úthlutunum sínum. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um 500 milljóna króna aukaframlag til sjóðsins var talið eðililegt að hluti þess færi einnig til framkvæmda í þjóðgörðum.

Sama ferli og aðrar umsóknir

Í janúar óskaði stjórn Framkvæmdasjóðsins eftir umsóknum frá Umhverfisstofnun, Þjóðgarðinum á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarði. Umsóknarfrestur var gefinn til 1. febrúar. Skilyrði voru sett um að einungis verkefni sem tilbúin voru til framkvæmda 1. mars 2013 væru gjaldgeng til úthlutunar. Stjórn stjóðsins óskaði eftir að umsækjendur fylgdu í einu og öllu umsóknarferli Framkvæmdasjóðsins og þeim skilyrðum sem þar eru sett enda skuli umsóknir metnar og afgreiddar með sama hætti og aðrar umsóknir til sjóðsins. Þá var ákveðið að setja 75 milljóna króna þak á hæstu styrki í þessari úthlutun.

Almennt um umsóknir:

Alls bárust tólf umsóknir til framkvæmda á árinu 2013, ein frá Umhverfisstofnun að upphæð 200,2 m.kr, sex frá Þingvallanefnd samtals að upphæð 189,9 m.kr og fimm frá Vatnajökulsþjóðgarði samtals að upphæð 271,8 m.kr. Samtals 661,9 m.kr. Þá bárust tvær umsóknir til framkvæmda á árinu 2014, ein frá Vatnajökulsþjóðgarði og ein frá Þingvallanefnd, samtals að upphæð 68,3 m.kr.

Allt eru þetta verðug verkefni en þau falla þó misvel að áherslum og starfsreglum stjórnar við styrkveitingar úr sjóðnum og þá sérstaklega nú þegar aðeins er um að ræða verkefni sem tilbúin eru til framkvæmda 1. mars.

Úthlutun:

Stjórn Framkvæmdasjóðsins lagði til úthlutun til eftirfarandi 5 verkefna, sem ráðherra samþykkti:

1. Umhverfisstofnun - Þjónustumiðstöð á Hellissandi 75.000.000 
2. Þingvallanefnd - Tenging á palli við rampa í Almannagjá 7.500.000
3. Þingvallanefnd – Frágangur á hlaði ofan Almannagjár 12.500.000
4. Vatnajökulsþjóðgarður - Þjónustumiðstöð við Dettifoss að vestan – 1. áfangi 37.500.000                         
5. Vatnajökulsþjóðgarður - Bætt aðgengi og öryggi ferðamanna í Eldgjá 14.250.000
Samtals: 146.750.000

Sjá nánar um verkefnin hér að neðan

Næsta úthlutun

Verið er að vinna úr umsóknum vegna næstu úthlutunar úr Framkvæmdasjóðnum, en umsóknarfrestur rann út 1. mars síðastliðinn. Í sumar eða haust verður síðan auglýst eftir umsóknum vegna 5. úthlutunar, sem væntanlega mun fara fram í janúar 2014.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, 3. úthlutun mars 2013

1. Umhverfisstofnun – Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi -75.000.000 kr
Áætlaður heildarkostnaður verksins á þessu ári er 200,2 milljónir kr sem er 2/3 af samanlögðum heildarkostnaði verkefnisins.

Hér er um að ræða verkefni sem lengi hefur verið í bígerð en ekki tekist að framkvæma vegna skorts á fjármagni. Með Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi getur þjóðgarðurinn betur sinnt hlutverki sínu við verndun náttúrunnar, mótttöku gesta, upplýsingagjöf, rannsóknir og fræðslu. Með tilkomu Þjóðgarðsmiðstöðvarinnar er gert ráð fyrir að fleira ferðafólk heimsæki Snæfellsnes og dvelji þar lengur. Þá er gert ráð fyrir að með uppbyggingu þjóðgarðsins skapist ýmis afleidd störf og tekjur fyrir heimamenn. Bygging Þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi er mikilvægur liður í að styrkja Snæfellsnes og Vesturland sem heilsárs áfangastað ferðamanna.

 

2. Þingvallanefnd – Tenging á palli við rampa í Almannagjá 7.500.000 kr
Áætlaður heildarkostnaður verksins er 15 milljónir kr.

Hér er um að ræða verkefni sem hefur það að markmiði að bæta aðgengi og flæði ferðamanna um staðinn. Verkefnið er mikilvægur þáttur í að bæta upplifun ferðamanna sem staðinn heimsækja.


3. Þingvallanefnd – Frágangur á hlaði ofan Almannagjár og upplýsingaskilti - 12.500.000 kr
Áætlaður heildarkostnaður verksins er 25 milljónir kr.

Hér er um að ræða verkefni sem hefur það að markmiði að bæta ásýnd og aðkomu svæðisins og upplýsingagjöf til ferðamanna á staðnum. Verkefnið er mikilvægur þáttur í að bæta upplifun ferðamanna sem staðinn heimsækja.

 

4. Vatnajökulsþjóðgarður – Þjónustumiðstöð við Dettifoss að vestan, 1. áfangi - 37.500.000 kr
Áætlaður heildarkostnaður verksins, þ.e. 1. áfanga, er 75 milljónir kr.

Núverandi þjónustuaðstaða við Dettifoss er fábrotin og frumstæð og annar á engan hátt þeim ferðamönnum sem heimsækja staðinn í dag. Fyrirséð er að ferðamönnum við Dettifoss muni fjölga mikið í kjölfar bættra samgangna á svæðinu og því nauðsynlegt að bregðast við eins og lagt er til í þessu verkefni. Uppbygging þjónustumiðstöðvar við Dettifoss að vestan er ekki bara nauðsynleg framkvæmd heldur mun hún án efa bæta upplifun og ánægju ferðamanna sem staðinn heimsækja og skapa störf á svæðinu. Verkefni þetta er liður í að lengja ferðamannatímabilið, og dvalartíma ferðamanna, á Norðurlandi.

 

5. Vatnajökulsþjóðgarður – Bætt aðgengi og öryggi ferðamanna í Eldgjá - 14.250.000 kr
Áætlaður heildarkostnaður verksins, að meðtöldum hönnunarkostnaði, er 28,5 milljónir kr

Hér eru um að ræða verkefni sem hefur það að markmiði að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna við Eldgjá, bæta innviði og vernda náttúru svæðisins fyrir vaxandi ágangi ferðamanna. Verkefnið mun draga úr álagi vegna ferðamanna á svæðinu, bæta ásýnd þess og upplifun ferðamanna sem staðinn heimsækja.