Fara í efni

Af þjóðvegi á öruggan útsýnisstað – Katla jarðvangur hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2025

Frá afhendingu verðlaunanna við Þorvaldseyri í dag. Frá vinstri: Jóhannes Marteinn Jóhannesson, fors…
Frá afhendingu verðlaunanna við Þorvaldseyri í dag. Frá vinstri: Jóhannes Marteinn Jóhannesson, forstöðumaður Kötlu jarðvangs; Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri; Árný Hrund Svavarsdóttir, úr sveitarstjórn Rangárþings eystra og frá Ferðamálastofu þau Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir og Snorri Valsson

 

Katla jarðvangur hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2025 fyrir hönnun og bætt öryggi með nýjum útsýnisstíg og myndatökustað við Eyjafjallajökul. Þar hefur vinsæll ferðamannastaður við þjóðveginn nú tekið miklum og jákvæðum breytingum.

 

Öryggi og upplifun haldast í hendur

Um er að ræða nýjan útsýnisstíg við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum þar sem hugað var að öryggi og aðgengi ferðamanna. Veittir voru styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, fyrir hönnun og síðan framkvæmd til að stýra flæði gesta frá þjóðveginum inn á þennan útsýnisstíg og myndatökustað. Einnig skyldi bæta fræðslu um eldstöðina og eldgosið árið 2010 í Eyjafjallajökli.

 

Styrkirnir voru mikilvægir bæði út frá öryggissjónarmiði og til stýringar á umferð en nauðsynlegt var að koma í veg fyrir að gestir stoppuðu og gengju um á þjóðveginum til að taka myndir. Framkvæmdin er samvinnuverkefni Kötlu Jarðvangs, sveitarfélagsins Rangárþings eystra og landeiganda.

 

Upplýsingar um framkvæmdina

Framkvæmdin fól í sér að leggja um 220 metra langan göngustíg, sem leiðir fólk frá bílastæðinu við Þorvaldseyri, sem þar er og út að útsýnisstað fyrir Eyjafjallajökul. Göngustígurinn er lagður af eco-raster grindum með möl, ásamt því að hafa orðið “Eyjafjallajökull” stafað með hvítum hellum. Fremst við göngustíginn er skilti með upplýsingum um útsýnisstaðinn og á leiðinni að útsýnisstaðnum frá bílastæðinu eru 16 myndaskilti og sýni úr mismunandi bergtegundum. Myndaskiltin segja sögu gossins í Eyjafjallajökli, stuttur texti á hverju skilti útskýrir það sem fyrir augun ber og einnig er texti um þá bergtegund sem er við skiltið. QR kóðar eru á öllum skiltunum sem leiða fólk inn á heimasíðu jarðvangsins þar sem það getur lesið meira um eldgosið og bergsýnin ásamt því að sjá fleiri myndir úr eldgosinu.

 

Við enda göngustígsins og á útsýnisstaðnum sjálfum eru nokkrir stórir stuðlabergssteinar sem hægt er að nota sem sæti á meðan fólk virðir útsýnið fyrir sér. Fyrir aftan skiltin er band sem lokar af svæðið á milli göngustígsins og þjóðvegar 1, til þess að fá fólk til að halda sig á stígnum og ekki hætta sér nær þjóðveginum.

 

Umhverfisverðlaun veitt frá árinu 1995

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd.


Þau hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 31. sinn sem þau eru afhent. Verðlaunin eru nú í tíunda sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi við áherslur sjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.

Á leiðinni eru 16 mynda- og upplýsingaskilti
og sýni úr mismunandi bergtegundum


Á þessari samsettu mynd má sjá hvernig "Eyjafjallajökull" er stafað með hvítum hellum.

Eyjafjallajökull speglast í verðlaunagripnum.