Fara í efni

Flokkun tjaldsvæða - endurskoðun á viðmiðum - þín skoðun

tjaldsvaedi
tjaldsvaedi

Nú eru liðin rúm tvö ár frá því að Ferðamálastofa setti fram þá hugmynd að vinna að flokkunarviðmiðum fyrir tjaldsvæði í landinu. Í framhaldi af því var settur af stað vinnuhópur til að koma með tillögur að flokkunarviðmiði.

Í hópnum áttu sæti auk fulltrúa Ferðamálastofu fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálasamtökum Íslands, Ferðaþjónustu bænda, Bandalagi íslenskra farfugla og Félagi ferðamálafulltrúa. Því miður eru ekki til hagsmunasamtök þeirra er reka tjaldsvæði og var því ekki hægt að leita í þeirra smiðju. Hins vegar ber þess að geta að margir tjaldsvæðarekendur eiga aðild að áðurnefndum samtökum á einn eða annan hátt.

Umræðusvæði um endurskoðun viðmiða
?Nú þykir okkur hjá Ferðamálastofu komið að endurskoðun á þessum viðmiðum og höfum við því opnað umræðusvæði hér á vefnum. En það er von okkar að þeir sem á einn eða annan hátt telja málið sér skylt komi með ábendingar um hvað betur mættir fara í þessum viðmiðum. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að það verður seint hægt að gera öllum til hæfis en vonum að þegar upp verður staðið þá verði þessi flokkunarviðmið fyrir tjaldsvæði til þess fallin að auka enn á gæðavitund kaupenda og seljenda þessara þjónustu,? segir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu.

Umræðusvæði þetta verður opið til og með 31. mars 2007 og ný viðmið kynnt í maí nk. sem taka gildi frá og með 1. janúar 2008. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega til þess að taka þátt í umræðum en ætlast til þess að allir skrifi undir fullu nafni.